Skúli stefnir á Asíu

„Árið 2018 og eftir það erum við að lenda veggjum …
„Árið 2018 og eftir það erum við að lenda veggjum mjög víða og við munum ekki leysa það nema með allsherjar viðhorfs- og stefnubreytingu,“ sagði Skúli. „Sem hefst með stjórnvöldum.“ mbl.is/Árni Sæberg

WOW air hefur mikinn metnað og áhuga á því að hefja flugferðir til Asíu og er það í raun aðeins spurning um tíma að sögn Skúla Mogensen, forstjóra WOW air, en hann hélt erindi á ráðstefnu Íslenska sjávarklasans, Flutningalandið Ísland, sem fram fór í Hörpu í dag. Sagði hann flugferðir til Asíu augljóslega „í pípunum“ á næstu árum.

Í erindi sínu fjallaði Skúli um framtíð Íslands sem tengipunkts og er það mat hans að það þurfi að búa til skýra stefnu til þess að gera Keflavíkurflugvöll öflugan tengiflugvöll sem gæti jafnvel orðið „Dubai Norðursins“.

Sagði Skúli að Ísland væri í ótrúlegu dauðafæri en að Íslendingar þyrftu að þora að trúa því sem framundan er og hugsa stórt.

„Alveg frá fyrsta degi var sagt við mig ‚Þetta er ekki hægt, þið farið á hausinn‘,“ sagði Skúli um upphafi WOW air. Sagði hann hinsvegar eitt stærsta vandamál flugfélagsins að allar áætlanir og spár hins opinbera hafa verið of varfærnar þrátt fyrir að flugfélögin hafi lagt fram áætlanir um mun meiri vöxt.

Þrjár milljónir farþega á næsta ári

Skúli ræddi um vöxt WOW air síðustu fimm árin og sagði hann ævintýri líkast. Í ár er gert ráð fyrir því að flugfélagið flyti 1,6 milljónir farþega og að á næsta ári verði þeir þrjár milljónir. Sagðist Skúli geta fullyrt að sú spá myndi ganga eftir. Velta WOW air á þessu ári var um 36 milljarðar króna og að sögn Skúla fer hún allavega yfir 50 milljarða, ef ekki 60 milljarða á næsta ári.

Flugfélagið á í dag ellefu vélar og sú tólfta bætist við í nóvember þegar að WOW air hefur flug til New York. Þá verður fimm glænýjum Airbus þotum bætt við flotann næsta vor og að sögn Skúla verður tilkynnt um fleiri áfangastaði fyrir þann tíma. Alls starfa 700 manns hjá WOW air í dag en á næsta ári verða þeir um þúsund.

Þá benti Skúli á að WOW air hafi aldrei þegið neina styrki og að enginn opinber aðili sé fjármögnunaraðili félagsins. „Það er í raun ekkert sem hefur verið gert í þessu umhverfi okkar til þess að láta þetta verða að raunveruleika,“ sagði Skúli. „Við höfum þurft að berjast fyrir okkar tilverurétt, sérstaklega fyrstu árin,“ bætti hann við og nefndi deilur vegna slott-tíma í því samhengi. „En í dag eigum við frábært samstarf við alla aðila og skilningurinn á tækifærinu og möguleikanum er að gjörbreytast.“

Vaxa á meðan hinir standa í stað

Ítrekaði Skúli að útflutningstekjur þjóðarinnar vegna ferðaþjónustu væru meiri en samanlagðar tekjur vegna sjávarútvegs og stóriðjunnar. „Við munum vaxa á næsta ári á meðan hinir standa í stað,“ sagði Skúli. „Ef svo heldur fram sem horfir trúi ég því að útflutningstekjurnar ferðaþjónustunnar slagi í 1000 milljarða innan örfárra ára ef við höldum rétt á spilunum. Hagsmunirnir eru gríðarlegir.“

Skúli sagði ferðaþjónustuna jafnframt ólíkum sumum geirum í því samhengi að hún dreifist mjög víðar og hjálpar öðrum iðnaði. Benti  hann á að ferðamannaaukningin hér á landi síðustu ár samsvari 10-15% fólksaukningu og hin og þessi fyrirtæki græða á ferðaþjónustunni umfram það sem sést í hagtölum.

WOW air stefnir til Asíu á næstu árum.
WOW air stefnir til Asíu á næstu árum. Ljósmynd/WOW

Flugvöllurinn löngu sprunginn

Skúli ræddi jafnframt um vöxt Keflavíkurflugvallar sem hann sagði hafa verið ótrúlegan síðustu ár. WOW air spáir því að níu milljónir farþega fari í gegnum völlinn á næsta ári sem er að sögn Skúla meira en aðrir spá. „Menn trúa ekki alveg að við séum að fara að gera það en ég fullyrði það hér og nú að við munum flytja þrjár milljónir farþega á næsta ári,“ sagði Skúli. Sagði hann aukninguna til staðar en vandamálið væri það að flugvöllurinn væri löngu sprunginn.

„Það er grátlegt að vera enn í þeirri stöðu að það sé verið að rífast um hvort að Suðurnesin fái 100 milljón króna fjárveitingu til að sinna tollaafgreiðslu,“ sagði Skúli. „Það vantar heildstæða stefnu og skilning svo við setjum hlutina í rétt samhengi.“

Keflavíkurflugvöllur
Keflavíkurflugvöllur Isavia

Benti Skúli jafnframt á hið „neikvæða“ atvinnuleysi sem er í ferðaþjónustunni en það vantar um 1500 starfsmenn í geirann á næsta ári og óljóst er hvernig fyllt verður í það gat.

„Árið 2018 og eftir það erum við að lenda veggjum mjög víða og við munum ekki leysa það nema með allsherjar viðhorfs- og stefnubreytingu,“ sagði Skúli. „Sem hefst með stjórnvöldum.“

Ekkert land í jafn góðri aðstöðu og Ísland

Fjallaði Skúli um alþjóðaflugvöllinn í Dubai í samhengi við Keflavíkurflugvöll en flugvöllurinn í Dubai er í dag stærsti flugvöllur heims sem 78 milljónir farþega fara í gegn árlega. 70% þeirra eru tengifarþegar og virðist ekkert lát á fólksfjöldanum í gegnum flugvöllinn.

Árið 1985 var flugvöllurinn hinsvegar tiltölulega lítill þar sem 3,9 milljónir farþega fóru þar í gegn árlega. Benti Skúli á að stjórnendur flugvallarins hafi gert þá framtíðarsýn að byggja stærsta flugvöll heims og gáfu sér tuttugu ár í það. Þrátt fyrir stærðina er staðsetningin þó ekki fullkominn. Ef miðað er við flugtíma hentar Dubai ágætlega fyrir Asíu, Afríku og Miðausturlönd.

78 milljónir farþega fóru um flugvöllinn í Dubai á síðasta …
78 milljónir farþega fóru um flugvöllinn í Dubai á síðasta ári Ljósmynd/Wikipedia

Sagði Skúli hinsvegar að enginn staður landfræðilega séð væri í jafngóðri aðstöðu og Ísland. Bætti hann við að flugtíminn skipti mestu máli í samgöngum þar sem kostnaður á hvern flugtíma væri verulegur. „Ég held að þetta sé rakið tækifæri. Við þurfum ekki að verða stærstir í heimi en þetta blasir við. Við erum að sjá góðan árangur í Evrópu og Ameríkuflugunum og hví ekki stækka en frekar?“ spurði Skúli.

Þá sagði hann jafnframt að ef Íslendingar grípi ekki tækifærið og stækki flugvöllinn og bæti við flugleiðum muni önnur flugfélög fá viðskiptavinina og nefndi Norwegian Air í því samhengi sem hefur þegar fjárfest í 22 Dreamliner breiðþotum á næstu tveimur árum sem fljúga beint yfir Atlantshafið. „Mikið af okkar flugleiðum í dag munu lenda í aukinni samkeppni, ekki bara á móti Norwegian heldur öðrum sem eru að færast nær lággjalda módeli,“ sagði Skúli og bætti við að eina leiðin til að keppa á alþjóðlegum grundvelli væri að komast upp í 30-40 vélar og að það væri markmið félagsins.

„Annað hvort förum við alla leið eða getum lent undir. Afleiðingarnar af því eru færri flug, ekki fleiri.“

Þora að horfa á stóru myndina

Benti hann á að 50% þeirra sem fljúga yfir Ísland á degi hverjum eru að skipta um flug á fyrsta áfangastað, þ.e. tengifarþegar, en nota annan tengiflugvöll en Keflavíkurflugvöll. „Þetta eru 50 milljónir farþega sem við getum krækt í gerum við þetta rétt.“

Sagði Skúli það skipta öllu máli að þora að hugsa og horfa á stóru myndina ásamt því að framkvæma sjálfur. Til þarf stefnumótun stjórnvalda sem er aðkallandi svo hægt sé að festa framtíðarsýn fyrir Ísland í heild sinni, ekki bara ferðaþjónustuna. Sagði Skúli það grátlegt hvað við eyðum óhemjumiklum tíma í að ræða flugvöll í Vatnsmýrinni eða Hvassahrauni „á meðan við horfum á þetta tækifæri líða framhjá. Hagsmunir okkar eru miklu stærri í þessu samhengi en þessi innanlands pólitík.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK