Reginn kaupir Urðarhvarf 6 og Víkurhvarf 8

Urðarhvarf 6 í Kópavogi.
Urðarhvarf 6 í Kópavogi. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Í dag var undirritað kauptilboð á milli Regins hf. og eigenda fasteignafélagsins U6 ehf. um kaup Regins á öllu hlutafé í félaginu. Kauptilboðið er m.a. með fyrirvörum um áreiðanleikakönnun og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Þetta kemur fram í tilkynningu Regins til Kauphallarinnar.

Fyrirhuguð kaup á U6 miðast við að heildarvirði eignasafns félagsins sé 2.700 milljónir króna. Vænt arðsemi fjárfestingarinnar fyrir árið 2017 er um 6,7%.

Fasteignasafn U6 samanstendur af tveimur fasteignum, Urðarhvarfi 6 og Víkurhvarfi 8 í Kópavogi. Heildarfermetrafjöldi fasteignasafnsins er 10.290 fermetrar, að stærstum hluta skrifstofuhúsnæði. Útleiguhlutfall fasteignasafnsins er 100% og eru núverandi leigutekjur um 224 milljónir króna á ársgrundvelli. Leigutakar eru þrír og þar af er Mannvit hf. stærsti leigutakinn með langtímaleigusamning. Ef af kaupunum verður stækkar eignasafn Regins um rúm 3% miðað við fermetrafjölda.

Reginn tilkynnti 17. nóvember síðastliðinn um samkomulag um kaup á eignarhlut í FM-húsum ehf., ásamt meðfjárfestum, og stendur yfir áreiðanleikakönnun á félaginu auk þess sem þau kaup eru jafnframt háð samþykki Samkeppniseftirlitsins. Regin er heimilt, samkvæmt kauptilboðinu um U6 ehf., að framselja réttindi sín og skyldur yfir til félagsins FM-hús ehf. sem yrði þá endanlegur kaupandi að U6 ehf.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka