Flestir aðstoðarmenn ráðherra lögfræðingar

Aðstoðarmenn ráðherra ríkisstjórnarinnar eru 16 talsins en þeim gæti fjölgað.
Aðstoðarmenn ráðherra ríkisstjórnarinnar eru 16 talsins en þeim gæti fjölgað. mbl

16 hafa verið ráðnir til þess að aðstoða 11 ráðherra nýrrar ríkisstjórnar sem mynduð var fyrr í mánuðinum. Um er að ræða 7 konur og 9 karla og stærstur hluti þeirra eru lögfræðingar en stjórnmálafræðingar eru einnig áberandi í hópnum.

Meðalaldur aðstoðarmannanna er 40,06 ár. Sá yngsti er 28 ára og sá elsti 59 ára.

Ráðherrar mega ráða til sín tvo aðstoðarmenn og hafa fimm ráðherrar gert það. Það eru Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra, Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra. Hinir ráðherrarnir eru aðeins með einn þegar þetta er skrifað og því má gera ráð fyrir því að það bætist í hóp aðstoðarmanna áður en kjörtímabilið er úti.

mbl

Þrír þeirra hafa áður verið aðstoðarmenn ráðherra, þar af tveir í síðustu ríkisstjórn en hinir þrettán koma nýir inn í starfið. Þeir hafa þó flestir sinnt fjölbreyttum störfum á ýmsum vettvangi.

11 af 16 aðstoðarmönnum eru með bein tengsl við stjórnmálaflokka, þ.e. hafa átt sæti á framboðslistum þeirra eða starfað fyrir flokkana á einn eða annan hátt.

Guðmundur Kristján lauk BES.-gráðu í umhverfisfræðum með áherslu á borgarskipulag …
Guðmundur Kristján lauk BES.-gráðu í umhverfisfræðum með áherslu á borgarskipulag frá University of Waterloo í Kanada á síðasta ári.

Guðmundur Kristján Jónsson er yngsti aðstoðarmaðurinn, 28 ára gamall. Hann var ráðinn sem aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fyrir helgi. 

Guðmundur lauk BES.-gráðu í umhverfisfræðum með áherslu á borgarskipulag frá University of Waterloo í Kanada á síðasta ári en helstu rannsóknarefni hans voru loftslags- og lýðheilsumál. 

Við ráðninguna sem aðstoðarmaður lét Guðmundur af störfum sem framkvæmdastjóri ráðgjafarfyrirtækisins Borgarbrags ehf. sem hann stofnaði og rekur ásamt Pétri H. Marteinssyni. 

Þess má geta að Guðmundur er kvæntur Heiðu Kristínu Helgadóttur, fyrrverandi varaþingmanni Bjartrar framtíðar og eins stofnenda flokksins. Hún lýsti þó yfir stuðningi við Viðreisn fyrir þingkosningarnar í haust. 

Laufey Rún hlaut BA-gráðu í lögfræði frá HÍ og MA-gráðu …
Laufey Rún hlaut BA-gráðu í lögfræði frá HÍ og MA-gráðu frá HR.

Laufey Rún Ketilsdóttir, aðstoðarmaður Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra, er 29 ára og lögfræðingur að mennt. Laufey hlaut BA-gráðu frá Háskóla Íslands og MA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hún starfaði sem blaðamaður hjá Morgunblaðinu áður en hún varð aðstoðarmaður Sigríðar.

Hún er jafnframt formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna og situr í stjórn Sjálfstæðisflokksins. Hún var framkvæmdastjóri SUS árið 2015 og hefur setið í stjórn sambandsins frá 2010.

Unnsteinn er menntaður KaosPilot, sem er nám í skapandi verkefnastjórnun. …
Unnsteinn er menntaður KaosPilot, sem er nám í skapandi verkefnastjórnun. Hann stundaði námið í Hollandi og Danmörku á árunum 2008 til 2012.

Unnsteinn Jóhannsson, aðstoðarmaður Óttars Proppé heilbrigðisráðherra, er þrítugur. Unnsteinn og Óttarr þekkjast eflaust vel en Unnsteinn hafði frá árinu 2015 aðstoðað hann sem formann Bjartrar framtíðar. Unnsteinn sat jafnframt í þriðja sæti flokksins fyrir þingkosningarnar í haust í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Unnsteinn er menntaður KaosPilot, sem er nám í skapandi verkefnastjórnun. Hann stundaði námið í Hollandi og Danmörku á árunum 2008 til 2012.

Áður en Gylfi varð aðstoðarmaður Benedikts starfaði hann sem sjálfstætt …
Áður en Gylfi varð aðstoðarmaður Benedikts starfaði hann sem sjálfstætt starfandi ráðgjafi í heilsuhagfræði og hafði verið stundakennari við Háskóla Íslands frá árinu 2014.

Gylfi Ólafsson, aðstoðarmaður Benedikts Jóhannessonar, fjármála- og efnahagsráðherra, er 33 ára gamall. Hann er með B.ed-gráðu sem grunnskólakennari frá Háskólanum á Akureyri og M.Sc-gráðu í hagfræði frá háskólanum í Stokkhólmi. Áður en hann varð aðstoðarmaður Benedikts starfaði hann sem sjálfstætt starfandi ráðgjafi í heilsuhagfræði og hafði verið stundakennari við Háskóla Íslands frá árinu 2014. Árin 2012-2016 var Gylfi ráðgjafi í heilsuhagfræði hjá Quantify Research í Stokkhólmi. 

Gylfi var oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi í kosningunum í haust.

Áður en Vigdís var ráðin sem aðstoðarmaður var hún lögfræðingur …
Áður en Vigdís var ráðin sem aðstoðarmaður var hún lögfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem hún sinnti undirbúningi og gerð umsagna um lagafrumvörp og önnur þingmál og tók þátt í samskiptum við Alþingi.

Vigdís Ósk Häsler Sveinsdóttir er annar tveggja aðstoðarmanna Jóns Gunnarssonar, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra. Vigdís, sem er 34 ára, lauk BA-prófi í lögfræði frá Háskólanum á Akureyri 2006, meistaraprófi 2008 og árið eftir hlaut hún málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi. Árið 2013 lauk hún LLm-prófi í alþjóðlegum refsirétti frá University of Sussex í Bretlandi.

Áður en hún var ráðin sem aðstoðarmaður var hún lögfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem hún sinnti undirbúningi og gerð umsagna um lagafrumvörp og önnur þingmál og tók þátt í samskiptum við Alþingi. Einnig annaðist hún lögfræðilega ráðgjöf og upplýsingagjöf til sveitarstjórnarmanna.

Inga er með BA-próf í stjórnmálafræði og hafði starfað töluvert …
Inga er með BA-próf í stjórnmálafræði og hafði starfað töluvert fyrir Sjálfstæðisflokkinn áður en hún varð aðstoðarmaður árið 2013.

Næst í röðinni er Inga Hrefna Sveinbjarnardóttir en hún er 35 ára. Inga er aðstoðarmaður Kristjáns Þórs Júlíussonar, mennta- og menningarmálaráðherra, en hún aðstoðaði hann líka síðasta kjörtímabil þegar hann gegndi stöðu heilbrigðisráðherra.

Inga er með BA-próf í stjórnmálafræði og hafði starfað töluvert fyrir Sjálfstæðisflokkinn áður en hún varð aðstoðarmaður árið 2013. Frá hausti 2012 til 2013 var hún framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins og hafði einnig starfað á skrifstofu Valhallar og gegnt stöðu framkvæmdastjóra Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík.

Steinar hefur síðastliðin ár starfað sem verk­efn­is­stjóri há­lendis­verk­efn­is Nátt­úru­vernd­ar­sam­taka Íslands …
Steinar hefur síðastliðin ár starfað sem verk­efn­is­stjóri há­lendis­verk­efn­is Nátt­úru­vernd­ar­sam­taka Íslands og Land­vernd­ar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Steinar Kaldal, annar aðstoðarmanna Bjartar Ólafsdóttur umhverfisráðherra, er 38 ára. Hann er með BA-próf í stjórnmálafræði með atvinnulífsfræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands og M.Sc-gráðu í umhverfisstjórnun og stefnumótun frá háskólanum í Lundi í Svíþjóð.

Hann hefur síðastliðin ár starfað sem verk­efn­is­stjóri há­lendis­verk­efn­is Nátt­úru­vernd­ar­sam­taka Íslands og Land­vernd­ar sem er sam­vinnu­verk­efni nátt­úru­vernd­ar­sam­taka, úti­vist­ar­sam­taka og Sam­taka ferðaþjón­ust­unn­ar og snýr að vernd miðhá­lend­is­ins. 

Þorbjörg Sigríður útskrifaðist með lögfræðipróf frá Háskóla Íslands árið 2005 …
Þorbjörg Sigríður útskrifaðist með lögfræðipróf frá Háskóla Íslands árið 2005 og LL.M.-gráðu frá Columbia University í New York árið 2011.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, aðstoðarmaður Þorsteins Víglundssonar, félags- og jafnréttismálaráðherra, er 38 ára gamall lögfræðingur. Hún útskrifaðist með lögfræðipróf frá Háskóla Íslands árið 2005 og LL.M.-gráðu frá Columbia University í New York árið 2011. Þá er hún með diplómagráðu í afbrotafræði frá Háskóla Íslands. Þorbjörg starfaði sem forseti lagadeildar Háskólans á Bifröst áður en hún var ráðin sem aðstoðarmaður Þorsteins.

Þorbjörg sat í öðru sæti Viðreisnar fyrir þingkosningarnar í haust í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Páll er með doktorspróf í heimspeki frá Cambridge-háskóla.
Páll er með doktorspróf í heimspeki frá Cambridge-háskóla.

Hinn aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar, ásamt fyrrnefndum Guðmundi, Páll Rafnar Þorsteinsson, er 39 ára og með doktorspróf í heimspeki frá Cambridge-háskóla. Þá er hann einnig með meistaragráðu í stjórnmálaheimspeki frá London School of Economics og BA-gráðu í heimspeki og grísku frá Háskóla Íslands.

Páll bauð sig fram fyrir Viðreisn í Reykjavíkurkjördæmi norður og sat í 3. sæti listans. Þess má geta að faðir Páls er Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins. 

Borgar var aðstoðarmaður menntamálaráðherra árin 2003-2004.
Borgar var aðstoðarmaður menntamálaráðherra árin 2003-2004.

Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðar­son­ar ut­an­rík­is­ráðherra, er 41 árs gamall. Borgar er hæstaréttarlögmaður frá árinu 2015 en héraðsdómslögmaður frá árinu 2006. Hann lauk laganámi frá Háskóla Íslands 2004.

Borgar Þór var formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna árin 2005 til 2007. Þá var hann aðstoðarmaður mennta­málaráðherra á ár­un­um 2003-2004.

Svanhildur er menntaður lögfræðingur og lauk prófi frá Háskóla Íslands …
Svanhildur er menntaður lögfræðingur og lauk prófi frá Háskóla Íslands árið 2009. mbl.is/G.Rúnar

Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, er 42 ára gömul. Hún er menntaður lögfræðingur og lauk prófi frá Háskóla Íslands árið 2009.

Hún var ráðin í stöðu aðstoðarmanns Bjarna sem formanns Sjálfstæðisflokksins í september 2012 og varð síðan aðstoðarmaður hans sem fjármálaráðherra eftir kosningarnar í apríl 2013. Frá 2009 til 2012 var Svanhildur framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins.

Áður en Ólafur Teitur var ráðinn sem aðstoðarmaður hafði hann …
Áður en Ólafur Teitur var ráðinn sem aðstoðarmaður hafði hann verið fram­kvæmda­stjóri sam­skipta­sviðs Rio Tinto Alcan á Íslandi frá árinu 2008.

Aðstoðarmaður Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferða­mála-, iðn­að­ar- og nýsköp­un­ar­ráð­herra, er Ólafur Teitur Guðnason. Hann er 43 ára og með BA-próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands.

Áður en hann var ráðinn sem aðstoðarmaður hafði hann verið fram­kvæmda­stjóri sam­skipta­sviðs Rio Tinto Alcan á Íslandi frá árinu 2008.

Karl er 47 ára og starfaði sem ráðgjafi í almannatengslum …
Karl er 47 ára og starfaði sem ráðgjafi í almannatengslum ásamt því að framleiða leikverk og sjónvarpsþætti áður en hann varð aðstoðarmaður.

Karl Pétur Jónsson er annar aðstoðarmanna Þorsteins Víglundssonar ásamt Þorbjörgu Sigríði sem nefnd er fyrr í þessari grein. 

Karl lauk BA-prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands 2003 og MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík 2008. Hann er varabæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi fyrir sjálfstæðisflokkinn þar sem hann situr í skólanefnd og jafnréttisnefnd.

Þórunn lauk meistaragráðu í landgræðsluvistfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands og er …
Þórunn lauk meistaragráðu í landgræðsluvistfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands og er að ljúka doktorsgráðu í landgræðsluvistfræði frá sama skóla.

Þórunn Pétursdóttir er annar aðstoðarmanna Bjartar Ólafsdóttur ásamt fyrrnefndum Steinari Kaldal. Hún er 49 ára og nam umhverfisfræði við Garðyrkjuskóla ríkisins og landfræði við Háskóla Íslands. Þórunn lauk meistaragráðu í landgræðsluvistfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands og er að ljúka doktorsgráðu í landgræðsluvistfræði frá sama skóla.

Áður en hún varð aðstoðarmaður hafði hún starfað hjá Landgræðslu ríkisins frá árinu 2003 og sinnt þar fjölbreyttum verkefnum, fyrst sem héraðsfulltrúi á Vesturlandi en síðar sem sérfræðingur, m.a. á sviði sjálfbærni og vistheimtar. 

Þórunn sat í öðru sæti Bjartrar framtíðar í Suðurkjördæmi fyrir þingkosningarnar í haust.

Sigrún er með doktorsgráðu á sviði lýðheilsu og stefnumótunar frá …
Sigrún er með doktorsgráðu á sviði lýðheilsu og stefnumótunar frá London School of Hygiene & Tropical Medicine.

Þá er Sigrún Gunnarsdóttir annar aðstoðarmanna Óttars Proppé ásamt Unnsteini. Hún er 56 ára og hjúkrunarfræðingur að mennt frá Háskóla Íslands. Sigrún er með doktorsgráðu á sviði lýðheilsu og stefnumótunar frá London School of Hygiene & Tropical Medicine.

Sigrún hefur gegnt þingmennsku sem varaþingmaður Bjartrar framtíðar 2013 og 2014 og er nú varaþingmaður flokksins. Hún sat í 2. sæti flokks Bjartrar framtíðar í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir þingkosningarnar í haust.

Þá hefur Sigrún starfað sem dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, á viðskiptasviði Háskólans á Bifröst og við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.

Ólafur, sem er 59 ára, hefur undanfarin ár verið forstöðumaður …
Ólafur, sem er 59 ára, hefur undanfarin ár verið forstöðumaður sölu- og samskiptasviðs hjá íslenska nýsköpunarfyrirtækinu Carbon Recycling International.

Síðastur en ekki sístur er Ólafur E. Jóhannsson, sem aðstoðar Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra, ásamt fyrrnefndri Vigdísi Ósk.

Ólafur, sem er 59 ára, hefur undanfarin ár verið forstöðumaður sölu- og samskiptasviðs hjá íslenska nýsköpunarfyrirtækinu Carbon Recycling International. Hann stundaði nám við lagadeild Háskóla Íslands en bakgrunnur Ólafs er jafnframt úr fjölmiðlum og almannatengslum og hefur hann rekið eigin starfsemi á því sviði fyrir ýmis fyrirtæki og samtök. Einnig starfaði hann sem fréttamaður hjá RÚV Sjónvarpi, Stöð 2 og Morgunblaðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK