„Hér hefur ekki dropi lekið“

Skip Hafrannsóknarstofnunnar í Reykjavíkurhöfn.
Skip Hafrannsóknarstofnunnar í Reykjavíkurhöfn. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Forstjóri Hafrannsóknarstofnunnar segir „ekki dropa“ um loðnukvótann hafa lekið út úr stofnuninni áður en upplýsingarnar voru birtar opinberlega á mánudaginn. Hlutabréf í HB Granda hækkuðu töluvert dagana áður en Hafrannsóknarstofnun tilkynnti að loðnukvótinn yrði sextánfaldaður. Forstjóri Kauphallarinnar segir það hluta af föstu verklagi að kanna öll mál þegar svona hreyfingar verða á markaðinum.

Er því velt upp í fréttum Kjarnans í gær og á þriðjudaginn hvort að vitneskja um kvótann hafi spurst út einhverjum dögum áður en hann var tilkynntur opinberlega. Hlutabréf í félaginu ruku upp eftir 8. febrúar og hækkaði um 22,5% á fjórum viðskiptadögum. Þótti hækkunin í skjön við ytra rekstarumhverfi HB Granda og annarra fyrirtækja í sjávarútvegi í ljósi sjómannaverkfallsins sem staðið hefur yfir í tvo mánuði.

Í svari við fyrirspurn Kjarnans til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins kemur fram að í ljósi þessara frétta muni ráðuneytið fara yfir alla ferla, samskipti og vitneskju sem lúta að ráðgjöf Hafró um aukinn loðnukvóta.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikilvægt að fara gætilega með upplýsingar

Forstjóri Hafrannsóknarstofnunnar, Sigurður Guðjónsson segir í samtali við mbl.is að engar tölur um loðnukvótann hafi komið frá stofnuninni fyrr en í tilkynningunni sjálfri. „Við sendum skipin út að leita og svo heyrist ekkert nema almennt um gang mála frá okkar sviðsstjóra fyrr en tölurnar eru birtar á þriðjudaginn.“ segir Sigurður. „Hér hefur ekki dropi lekið.“

Sigurður segir það mjög jákvætt að ráðherra ætli að endurskoða alla ferla sem lúta að ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunnar um aukinn loðnukvóta og segir að það verði fljótgert. Segir hann það mikilvægt að farið sé mjög gætilega með allar upplýsingar sem komi frá stofnuninni, ekki síst vegna þeirra áhrifa sem geta orðið á mörkuðum.

Forstjóri Hafrannsóknarstofnunnar, Sigurður Guðjónsson.
Forstjóri Hafrannsóknarstofnunnar, Sigurður Guðjónsson.

Tímabært og gott framtak

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar segist í samtali við mbl.is ekki geta tjáð sig um einstök mál. „En ef það eru svona hreyfingar á markaðinum er það bara hluti af föstu verklagi hjá okkur að fara ofan í það.“

Páll segist fagna fréttum þess efnis að verklagið verði skoðað. „Ég held að það sé tímabært og gott framtak. Þarna eru oft upplýsingar sem skipta fjárfesta verulegu máli.“

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir