Húsnæðisverð drífur áfram verðbólgu

Verðbólguþróun hér á landi ræðst eftir húsnæðisverði og ef ekki væri fyrir hækkanir á þeim markaði hefði orðið verðhjöðnun hér á landi á síðasta ári. Hagstofan birti í morgun tölur yfir vísitölu neysluverðs. Þar kemur fram að síðastliðna tólf mánuði hef­ur vísi­tala neyslu­verðs hækkað um 1,7% en vísi­tal­an án hús­næðis hef­ur lækkað um 2,6%.

Í samtali við mbl.is segir Erna Björg Sverrisdóttir, hjá greiningardeild Arion banka þetta áhugaverðar tölur sem sýni hvað húsnæðisliðurinn er stór. „Það er hann sem er algjörlega að drífa áfram verðbólguna. Hvernig verðbólgan mun þróast ræðst núna af því hvernig húsnæðisverðið fer.“

Erna segir að greiningardeildin spái því að húsnæðisliðurinn muni að öllum líkindum halda áfram að hækka næstu misseri. „Það getur farið að hægja á hækkunum en það verða engu að síður verulegar hækkanir. Á móti vegur gengisstyrking og aukin samkeppni en maður sér ekki mikil merki um innlendan verðbólguþrýsting nema á húsnæðismarkaði,“ segir Erna.

Hún segir stöðuna á húsnæðismarkaði áhyggjuefni. „Við hérna á deildinni höfum bent á það eins og margir aðrir að það þurfi að byggja meira. Þessar hækkanir eru drifnar áfram af framboðsskorti. Það hefur verið ágætt jafnvægi en núna er verðið að fjarlægast undirliggjandi stærðir og farið að hækka meira en t.d. kaupmáttur launa, sem eru fyrstu merki um ójafnvægi í hagkerfinu.“

Erna segir að það verði áhugavert að fylgjast með verðbólguþróuninni næstu vikur og mánuði. „Næstu verðbólgutölur verða þær fyrstu eftir að Costco opnar og það verður áhugavert að sjá hvernig það kemur út í verðmælingum Hagstofunnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK