Ætla að byggja upp breiða vörulínu

Munurinn á jurtalyfjum og hefðbundnum lyfjum er uppruni virka efnisins.
Munurinn á jurtalyfjum og hefðbundnum lyfjum er uppruni virka efnisins. Eggert Jóhannesson

Kolbrún Hrafnkelsdóttir, lyfjafræðingur og forstjóri Florealis, fékk hugmyndina að stofnun fyrirtækisins árið 2012. Kolbrún hefur starfað við ýmis störf í lyfjageiranum, meðal annars við stjórnun og alþjóðleg þróunarverkefni hjá Actavis. „Ég hef verið að vinna að þessu síðan 2012 og við ákváðum ári síðar að stofna fyrirtækið. Við tókum þátt í Startup Reykjavík og kynntumst þar frábæru fólki sem hefur stutt við okkur og fengum viðbrögð við hugmyndinni. Síðan fóru hjólin að rúlla og við fórum af stað með fyrstu lyfin okkar. Í fyrra unnum við síðan keppnina Iceland's Rising Star sem Deloitte stendur fyrir og komumst þar af leiðandi á alþjóðlegan lista fyrirtækja sem talin eru líkleg til að vaxa hratt á næstu árum.“

Að sögn Kolbrúnar skapaðist ákveðinn grundvöllur fyrir jurtalyf á sama hátt og önnur lyf þannig að þau séu viðurkennd sem fullgild lyf árið 2011 þegar evrópskt regluverk um jurtalyf tók gildi. Þá fékk evrópska lyfjastofnunin ákveðin hlutverk í tengslum við jurtalyf, en hún gefur meðal annars út svokallaðar lyfjaforskriftir og hefur eftirlit með slíkum lyfjum. „Jurtalyf eiga náttúrulega mjög langa sögu, en með þessu var sköpuð ákveðin umgjörð til þess að geta sinnt þessum rannsóknum, sýnt fram á virkni jurtalyfja, nýtt gæðastaðla og fleira sem vantaði algjörlega til þess að svona rekstur væri raunverulegur möguleiki á þeim sessi sem hann á skilið,“ segir Karl Guðmundsson, markaðsstjóri Florealis.

Byggt á vísindalegum grunni

Ef til vill verða einhverjir tortryggnir þegar þeir heyra hugtakið jurtalyf og aðspurð segja þau Kolbrún og Karl það vissulega vera áskorun að markaðssetja jurtalyf og aðgreina sig frá þeirri flóru af ýmsum fæðubótarefnum og valmöguleikum sem hafa stundum verið kallaðir jurtalyf. „Það hefur margt verið kallað jurtalyf hér á landi en ef við förum í strangar skilgreiningar er það sem hefur verið í boði á íslenskum markaði hingað til flokkað sem náttúruvörur eða fæðubótaefni. Það er til mjög fjölbreytt úrval af ýmsum náttúruvörum, fæðubótarefnum sem eru í raun alveg sér á báti. Þar gildir ekki sama stranga regluverk og gildir á lyfjamarkaði. Margar náttúruvörur eru óskráðar vörur en lyfin og lækningavörurnar sem við erum að bjóða upp á eru skráð og við föllum undir Lyfjastofnun og erum í raun nær fyrirtækjum eins og Alvogen og Actavis. Mörg fyrirtæki sem hafa verið að vinna vörur úr jurtum falla undir Matvælastofnun hvað eftirlit varðar og þurfa ekki að huga að þessu stranga regluverki sem gildir um lyfjamarkaðinn,“ segir Karl.

„Frá mínum bæjardyrum séð er mikilvægasti munurinn á fæðubótarefnum eða náttúruvörum annars vegar og lækningavörunum og lyfjum hins vegar að fæðubótarefnin eru ekki með neina viðurkennda virkni. Það má ekki segja að fæðubótarefni eða óskráðar náttúruvörur lækni eða lini sjúkdóma eða séu fyrirbyggjandi. Okkar lyf og lækningarvörur eru með viðurkennda virkni sem má auglýsa. Þetta eru viðurkennd lyf og lækningavörur sem byggja á vísindalegum grunni og gríðarlega umfangsmiklum rannsóknum. Munurinn á okkar vörum og hefðbundnum lyfjum er fyrst og fremst sá að okkar vörur eru allar gerðar úr virkum efnum frá náttúrunnar hendi en virku efnin í hefðbundnum lyfjum eru yfirleitt framleidd í verksmiðjum,“ segir Kolbrún og bætir við að til sé þó fjöldinn allur af góðum fæðubótarefnum sem ekki teljist til lyfja eða lækningavara. „Sem dæmi var vörumerkið lýsi byggt upp í trú um að lýsi væri mjög hollt, án þess að það væru endilega einhverjar vísindalegar rannsóknir sem styddu það, en í dag er virkni omega-fitusýra vel þekkt,“ segir Kolbrún.

Fyrstu lækningavörur Florealis koma á markað í lok ágústmánaðar.
Fyrstu lækningavörur Florealis koma á markað í lok ágústmánaðar. Eggert Jóhannesson

Nýtt val

Í lok síðasta mánaðar fékk Florealis markaðsleyfi fyrir fyrsta lyfinu, sem áætlað er að komi á markað í lok september en auk þess fara fjórar lækningavörur á markað í lok mánaðarins. „Við erum komin með markaðsleyfi fyrir fyrsta lyfinu okkar í tveimur löndum og þetta er á lokametrunum hérna heima. Við lítum á þetta sem nýtt val gegn algengum vægum sjúkdómum. Lyngonia, sem var að fá markaðsleyfi, er til að mynda lyf gegn endurteknum þvagfærasýkingum hjá konum. Það eru ekki mjög margir valkostir í boði gegn slíku þó að til séu ýmis fæðubótaefni. Þau standa að vissu leyti á veikari grunni en lyf hvað varðar virkni og öryggi og framleiðsluferillinn er oft ekki jafn öruggur, vegna þess að ekki er eins strangt eftirlit með fæðubótarefnum og lyfjum,“ segir Kolbrún

„Markmið okkar er að byggja upp breiða vörulínu og vörumerki af jurtalyfjum og lækningavörum. Við munum bjóða upp á húðvörur gegn bóluvandamálum og frunsum og síðan erum við með línu fyrir konur sem eru helst gegn algengum vandamálum á kynfærasvæðum kvenna. Vöruframboðið höfðar að vissu leyti meira til kvenna, en við vitum að konur eru virkar í að stuðla að heilbrigði fjölskyldunnar þannig að þetta er alls ekki bara fyrir konur. Við erum með ýmis lyf og lækningavörur í pípunum sem við höfum komið auga á og okkur finnst vanta á markaðinn, stefnan er að það verði komnar í kringum fjörutíu vörur frá Florealis á markað á næstu fimm árum. Þetta er allt frá lausnum gegn kvefi og hósta, vægu þunglyndi, magaóþægindum og svefnvandamálum. Þannig að við erum í raun bara að skoða hvað er að hrjá nútímamanninn og bjóða upp á valkosti,“ segir Karl.

Stefna á Norðurlöndin

„Það er stór markaður fyrir jurtalyf erlendis. Í Þýskalandi og annars staðar í Mið-Evrópu er hann nánast á stalli með hefðbundnum lyfjum en það er aðeins öðruvísi á Norðurlöndunum, en hefur verið að stækka hratt undanfarið. Við stefnum á að markaðssetja vörurnar okkar í öllum Norðurlandaríkjunum og erum með tvo starfsmenn í markaðsmálum í Svíþjóð, þar hafa apótek fundið fyrir auknum áhuga á þessum valmöguleika. Sænski markaðurinn er mjög stór og dýnamískur eftir að einokun sænska ríkisapóteksins var afnumin árið 2009. Við ákváðum snemma í ferlinu að stefna á öll Norðurlandaríkin og erum fyrsta fyrirtækið sem fer í skráningarferli í öllum Norðurlandaríkjunum á sama tíma,“ segir Karl.

Heppin með fjárfesta

Aðspurð segir Kolbrún að fjárfesting hjá nýsköpunarfyrirtækjum sé alltaf erfið og mikill hjalli. „Við höfum verið rosalega heppin og fengum snemma öfluga innlenda einkafjárfesta til liðs við okkur. Þeir hafa reynst okkur rosalega vel og stutt okkur og fjármagnað félagið. Þar á meðal er mjög öflugt og reynslumikið fólk úr lyfjageiranum og viðskiptalífinu.“

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir