Fyrsti bjór Lady Brewery kominn á krana

Þórey Björk Halldórsdóttir og Ragnheiður Axel eru konurnar á bak …
Þórey Björk Halldórsdóttir og Ragnheiður Axel eru konurnar á bak við bjórgerðina Lady Brewery. Hér eru þær á Hlemmur Square þar sem bjórinn verður kynntur í dag. mbl.is/Eggert

Þær Þórey Björk Halldórsdóttir og Ragnheiður Axel hafa sett á fót bjórgerðina Lady Brewery sem sameinar ástríðu þeirra fyrir bjór, hönnun og matargerð. Fyrsti bjórinn þeirra, First Lady er nú fáanlegur á krana og verður kynntur til sögunnar síðar í dag. 

„Við Þórey höfum unnið saman í ýmsum verkefnum og lengi ætlað í samstarf saman," útskýrir Ragnheiður. „Við byrjuðum á að fá áhuga fyrir að eima ilmvötn og var það á borðinu í stuttan tíma. Allir fundir þessa verkefnis fóru fram yfir bjór og ætli það hafi ekki komið upp vitrun.  Eitthvað sem sameiginlegur áhugi okkar á góðum mat, ást okkar á góðum bjór og fallegum umbúðum kveikti. Ég stakk uppá hvort það væri ekki bara málið að fara út í það ævintýri að brugga bjór. Og svarið var strax já."

Umbúðirnar eru í svart-hvítu og eru mjög frumlegar og fallegar.
Umbúðirnar eru í svart-hvítu og eru mjög frumlegar og fallegar. Ljósmynd/ Ragnheiður Axel

Bjórbruggun verið kvennastétt þar til fyrir 150 árum

Hvorug þeirra var með bakgrunn í bjórgerð sem þær segja i raun hafa verið það skemmtilegasta við allt ferlið. „Við byrjuðum á þessu sem áhugamáli og á þeim grundvelli, keyptum við bækur, gúggluðum og leituðum til brugg vina og meistara til að fá ráðleggingar og lærdóm beint í æð. Við erum heppnar með það að við erum ráðagóðar og fljótar að læra," segir Þórey. „Við nálgumst líka bruggið allar á ólíkan hátt, ég hef til dæmis bruggað mínar uppskriftir út frá lit og áferð, Raxel út frá persónuleika og bragði. First Lady uppskriftin var svo formuð í samstarfi við dönska vinkonu okkar Kristina Daisy Rácz.“

Ragnheiður segir að hugmyndin á bak við nafnið Lady Brewery og hugmyndina í heild sé komið út frá sögulegu samhengi. „ Þegar hugmyndin kom upp um að brugga bjór þá fórum við að krafsa aðeins í sögu bjórsins. Allt frá Egyptalandi til forna og þar til fyrir í raun stuttu síðan, eða fyrir aðeins 150 árum, var bjórbruggun kvennastétt. Bjór var alltaf bruggaður af konum allsstaðar í heiminum. Í dag er talið að nornaseyði hafi jafnvel verið bjór þar sem hver sá sem drakk af honum hagaði sér undarlega. Þetta fannst okkur skemmtilegt og merkilegt og þannig kom nafnið til.“

Þórey segir að í raun sé ekkert sem standi í vegi fyrir konum í þessum bransa þó að hann hafi einkennst sem karlabransi undanfarna öld. „Þetta er ansi erfiður bransi að vera í og það gildir fyrir alla, stelpur og stráka, þó að strákarnir séu í meirihluta.“

First Lady er 6.1 % IPA bjór, gullinn og ferskur …
First Lady er 6.1 % IPA bjór, gullinn og ferskur með miklum sítrus og ögn blómlegur. Hann er hér á krana á Hlemmur Square hótelinu við Hlemm. mbl.is/Eggert

Hrátt en fágað útlit á flöskunum

Nöfnin á bjórunum eru sérstaklega athyglisverð og umbúðirnar að sama skapi fagurlega hannaðar. 

„Nöfnin komu til okkar yfir miklum hlátri þegar við erum að forma uppskriftir og brugga bjórinn okkar. First Lady er nafn sem kom útfrá okkar eigin nafni og var jafnframt fyrsti bjórinn sem við bruggðum. „The Other Woman“ er svo annar bjórinn sem við brugguðum sem varð óvart að hjásvæfu forsetans," útskýrir Þórey. Listræn stjórnun er í höndum Þóreyjar Bjarkar og grafísk hönnun í höndum eiginmanns hennar, Baldurs Björnssonar. „Við ákváðum að hafa útlitið svart, hvítt og hrátt en jafnframt fágað. Það er kannski erfið blanda en mjög skemmtileg þegar vel tekst til. Hugmyndir að útliti er ávalt samtal teymisins sem spinnst bæði yfir bjórgerð og þegar bjórþorsta er svalað.“

Lady Brewery er flökku brugghús sem þýðir að sögn Þóreyar að þær eiga ekkert húsnæði til að brugga í heldur ferðast á milli og vinna með öðrum brugghúsum í þeirra aðstöðu. „Í leiðinni sækjum við lærdóm og ómetanlega vitneskju hjá bruggmeisturum og eignumst nýja vini. Okkur langaði til að byrja á að brugga fyrsta bjórinn „heima" í 101 Reykjavík semsagt, og settum okkur í samband við Ægir Brugghús, Ólafur S.k. Þorvaldz bruggmeistari tók vel á móti okkur og er hann búin að vera frábær skipstjóri á skipi örlaganna.“

First Lady merkið er teiknað af myndlistarmanninum Baldri Björnssyni.
First Lady merkið er teiknað af myndlistarmanninum Baldri Björnssyni.

First Lady kynntur í dag

Í dag verður fyrsti bjórinn, First Lady, sem er kröftugur IPA með sítrus og blómakeimi kynntur á Hlemmur Square hótelinu við Hlemm á milli 17-19 þar sem gestum gefst kostur á að smakka hann og verður svo til sölu þar á krana. Einnig verður hann til sölu frá og með deginum í dag á Micro Bar, veitingahúsinu Skál í Hlemmi Mathöll, Skúla Craft Bar og í Ölverki í Hveragerði á mánudeaginn. „Það eru fleiri staðir sem eru heitir fyrir okkur og  án efa munu margir detta inn næstu misseri, það er hægt að fylgjast með því á Facebook síðunni okkar. Við stefnum á flöskulínu af bjórnum „Good Enough for me" sem er Red Ale og „Svart hvíta hetjan mín" sem er Belgískur Witbier í byrjun næsta árs. 

En hver er draumurinn um framtíðina hjá Lady Brewery? „Ætli fyrirsögnin verði ekki „Opnuðu kvennabar í Sádí Arabíu!“ segir Þórey og hlær. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK