Vilhjálmur gagnrýndi Seðlabankann

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður ...
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, vandaði Seðlabankanum ekki kveðjurnar á fundi sem nú stend­ur yfir í Há­skóla­bíói og hvatti stjórnmálamenn til að vera á tánum en ekki hnjánum þegar kemur að verja hagsmuni heimilanna gagnvart okurvöxtum og verðtryggingu.

„Ég segi það hvítt og klárt að okurvextir og verðtryggingin er langstærsta hagsmunamál sem íslensk heimili og íslensk alþýða standa frammi fyrir,“ sagði Vilhjálmur sem lét gamminn geysa og skaut pillum á seðlabankastjóra eins og hann orðaði það sjálfur. 

Vilhjálmur bar saman lánakjör á Norðurlöndunum og hér á landi með dæmi um 25 milljón króna húsnæðisláni og benti á það að hér á landi greiði íslenskir neytendur 92 þúsund krónum meira í hverjum einasta mánuði í húsnæðislán. „Ef það er eitthvað mál sem er brýnna en að taka á þessu, þá veit ég ekki hvað,“ sagði Vilhjálmur. 

Vaxtakjör og stýrivextir gjörsamlega galnir

„Seðlabankastjóri sagði um daginn að vextir á Íslandi væru bara nokkuð eðlilegir, þær væru bara hins vegar of lágir á Norðurlöndunum. Ég tek undir til dæmis með fyrrverandi framkvæmdastjóra Samtaka Atvinnulífsins og forstjóra Icelandair Group sem segir að vaxtakjör og stýrivextir Seðlabankans séu gjörsamlega galnir.“

„Hugsið ykkur að verðtryggðir vextir á Íslandi eru hærri heldur en óverðtryggðir vexti á Norðurlöndunum. Verðtryggðir vextir á húsnæðislánum eru að meðaltali 4,25%. Viðskiptabankarnir þrír eru reyndar að bjóða núna verðtryggða vexti upp á 3,65% upp í 4,65%, fer eftir því hver veðsetningarhlutfallið er. Þetta þýðir að verðtryggðir vextir sem íslenskum neytendum standa til boða eru 1,57% upp í 2,57% hærri heldur en óverðtryggðir vextir á Norðurlöndunum. Við þessa vexti bætist síðan öll áhættan sem neytendur þurfa að þola.“

Hækkun jafngildir aflaverðmæti þorsksins

Þá benti Vilhjálmur á að við verðtryggða vexti bætist öll áhætta sem neytendur þurfa að þola vegna verðbólgunnar. „Ef ársverðbólga er 3% sem er í sögulegu samhengi mjög lág, þá þýðir það að verðtryggðar skuldir heimilanna hækka um 55 milljarða. Til að setja þetta í samhengi þá var aflaverðmæti á okkar mikilvægasta fiskistofni sem er Þorskurinn svipuð tala.“

Vilhjálmur lýsti því einnig yfir að Seðlabankinn ætti að vera fremstur í flokki við afnám verðtryggingarinnar. „Ókostir verðtryggingarinnar á neytendalánum blasa við. Auka peningamagn í umferð, skapa verðbólguþrýsting, ganga gegn eðlilegum lögmálum og varfærni í lántöku, hvetur til of mikillar skuldsetningar og dregur úr virkni peningamálastefnu Seðlabankans. Þannig að ef einhver ætti að vera fremstur í flokki fyrir því að vilja afnema verðtryggingu þá ætti það að vera Seðlabankinn,“ sagði Vilhjálmur og sýndi tölur um skaðsemi verðtryggðs 10 milljón króna 40 ára verðtryggðs jafngreiðsluláns sem hafði sjöfaldast.

Vilhjálmur heldur því fram að aldrei hafi staðið til að afnema verðtrygginguna þrátt fyrir að settur hafi verið á laggirnar sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar. „Ég þekki það af eigin raun hvernig varðhundar fjármálakerfisins virka, ég sat í sérfæðingahóp um afnám verðtryggingar og á fyrsta degi stóð aldrei til hjá fjármálaelítunni að láta það gerast að verðtrygging á neytendalánum heimilanna yrði afnumin, enda hótaði ég eftir fyrsta fund að hætta þessari vinnu en hélt svo áfram og skilaði sératkvæði.“

Vilhjálmur gerði yfirdráttarlán viðskiptabankanna jafnframt að umtalsefni. „Það slær mig hrikalega að yfirdráttarlán íslenskra heimila eru á bilinu 70 til 100 milljarðar. Vextirnir af þessum lánum eru 12,25% sem þýðir það að íslensk heimili eru að greiða 9 til 12 milljarða í vexti vegna yfirdráttar. Og hverjir eru að taka yfirdráttarlánin? Það er unga fólkið, heimilin og tekjulægsta fólkið sem lendir til dæmis í því að þvottavélin bilar, þarf að ferma eða jafnvel eins og ég þekki dæmi um að fólk hækkaði yfirdráttinn um milljón til að geta jarðsett barnið sitt. Þetta er fólkið sem þarf að standa straum og þessu og þetta er gjörsamlega galið.“

Fundargestir fögnuðu erindi Vilhjálms
Fundargestir fögnuðu erindi Vilhjálms mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum með verðhjöðnun hér, ég bara minni á það“

„Það er engin verðbólga á Íslandi önnur en sú sem myndast hér vegna þess að það vantar átta þúsund íbúðir inn á íslenskan húsnæðismarkað og þrjú þúsund íbúðir á hverju einasta ári. Það er húsnæðisliðurinn sem er að keyra verðbólguna áfram. En ég minni ykkur á það að við erum með stýrivextina í 4,25% eftir rausnarlega 0,25% lækkun á miðvikudaginn, en stýrivextir í ölum þeim löndum sem við berum okkur saman við eru 0%. 

Þá sagði Vilhjálmur það vera vægt til orða kveðið að verðbólguspár Seðlabankans hefðu ekki verið nákvæmar og birti mynd af spákonu að lesa í kristalskúlu á glærukynningu sinni. „Það er magnað hvað Seðlabankinn er duglegur að finna nýjar og nýjar aðstæður og ástæður fyrir því að viðhalda svona háum stýrivöxtum. Ég held að hagfræðilegt tungutak sérfræðinga Seðlabankans, og reyndar fleiri, nota til að réttalæta ákvarðanir sínar séu orðnir svo flóknir að þeir skilja þær ekki sjálfir,“ sagði Vilhjálmur og bætti því við að vaxtaákvarðanir peningastefnunefndarinnar væru skemmtilegt lesefni því að orðið óvissa kæmi svo oft fyrir þar. 

Stjórnvöldum skítsama um fólkið og heimilin

Þá bað Vilhjálmur Seðlabankann um að hætta hræðsluáróðri í kringum kjarasamninga, hvatti þá til að líta sér nær og bar saman laun verkafólks, starfsmanna seðlabankans, þingmanna og seðlabankastjóra. Eftir að hafa gagnrýnt Seðlabankann gagnrýndi Vilhjálmur stjórnvöld almennt og rifjaði upp þegar gengistryggðu láninu voru dæmd ólögmæt. „Þá sagði Seðlabankinn að það væri algjörlega galið að þeir vextir sem voru 2 til 3% fengju að standa óhaggaðir, menn settu Árna Páls lögin á í hvelli og Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið sendu út tilmæli um það að nota seðlabankavextina sem voru 8,2%, þeir voru síðan reyndar rassskelltir af Hæstarétti því þetta var kolólöglegt því þeir létu þetta virka afturvirkt. En ég er bara að sýna ykkur fram á það hvernig stjórnvöld ætíð taka stöðu með fjármálakerfinu og þeim er skítsama um fólkið og heimilin.“

Erindinu lokaði Vilhjálmur á því að lýsa því yfir að tími væri kominn til þess að stjórnmálamenn og stjórnvöld á hverjum tíma fyrir sig væru á tánum en ekki hnjánum þegar kemur að því að verja hagsmuni almennings í þessu landi. „Okurvextir og verðtrygging eru ekkert náttúrulögmál heldur eru þetta mannanna verk sem auðveldlega er hægt að breyta, allt sem til þarf er kjarkur vilji og þor,“ sagði Vilhjálmur við mikinn fögnuð viðstaddra. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir