Ber að breyta lögum vegna dómsins

Íslenskum stjórnvöldum ber að breyta lögum og reglum til samræmis við niðurstöðu EFTA-dómstólsins. Unnið verður að því að heimildir EES-samningsins um eftirlit með innflutningi á dýraafurðum verði nýttar.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu. Þar segir að íslensk stjórnvöld hafi verið þeirrar skoðunar að leyfisveitingakerfið samræmdist EES-samningnum og að þeim sjónarmiðum hafi verið haldið uppi í málsvörnum íslenska ríkisins. 

Tekið er fram að dómurinn fjalli ekki um það magn sem flutt er inn af kjöti, eggjum og mjólk til landsins, eingöngu það heilbrigðiseftirlit sem viðhaft er við innflutning á þessum vörum. 

„Ljóst er að fram til þessa hafa íslensk stjórnvöld brotið gegn EES-samningum og þurfa nú að gera sitt ýtrasta á þessu sviði til að uppfylla þær skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist. Samkvæmt samningi EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls skulu hlutaðeigandi EFTA-ríki gera nauðsynlegar ráðstafanir til að framfylgja dómum EFTA-dómstólsins. Íslenska ríkinu ber samkvæmt þessu að breyta lögum og reglum til samræmis við niðurstöðu dómsins. Íslensk stjórnvöld munu vinna að því að heimildir EES-samningsins um eftirlit með innflutningi á dýraafurðum verði nýttar, til dæmis varðandi salmonellu.“

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir