Yfir 10 milljónir fara um flugvöllinn

Flugstöð Leifs Eiríkssonar verður sívinsælli fyrir tengifarþega.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar verður sívinsælli fyrir tengifarþega. mbl.is/Ómar Óskarsson

10,4 milljónir farþega fara um Keflavíkurflugvöll á næsta ári samkvæmt spá Isavia um farþegafjölda og nemur fjölgunin milli ára 18%.

Hlynur Sigurðsson framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Keflavíkurflugvallar kynnti farþegaspá Isavia á árlegum morgunfundi félagsins í dag. 

Mest er fjölgunin á meðal skiptifarþega, sem millilenda eingöngu á flugvellinum á leið sinni á milli Evrópu og Norður-Ameríku eða 33%. Fjölgun komu- og brottfararfarþega er hlutfallslega minni en undanfarin ár, 10%, en þó er fjölgunin töluvert yfir meðaltalsfarþegafjölgun á flugvöllum í Evrópu og Norður-Ameríku.

Árstíðasveiflan minni

Búist er við því að fjölgun farþega í júní, júlí og ágúst verði um 4%, en að fjölgun utan mestu álagstímanna verði á bilinu 10-20% og að janúarmánuður árið 2018 verði stærri hvað farþegafjölda varðar en júnímánuður árið 2015. 

Ef spáin gengur eftir mun farþegafjöldi hafa fjórfaldast á átta árum og ríflega tvöfaldast frá árinu 2015 en til að mæta áframhaldandi vexti býst Isavia við að framkvæma fyrir meira en 15 millharða á ári næstu árin.

Verulegur ábati af skiptifarþegum

Á fundinum fór Dr. Huginn Freyr Þorsteinsson ráðgjafi yfir fjölgun skiptifarþega og þann  ábata sem af þeim hlýst. Hann sagði að fjölgun skiptifarþega auki verulega flugtengingar við Ísland þar sem að flugfélög geti flogið til áfangastaða sem séu ekki eins ábatasamir ef eingöngu er horft til að markaðssetja ferðir til og frá Íslandi.

Huginn Freyr fór yfir nokkra þætti í þessu sambandi eins og tækifæri til að laða að margs konar starfsemi, stuðning við útflutning og lækkun vöruverðs.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir