90 milljarða aukning innifalin í stjórnarsáttmálanum

mbl.is/Eggert

Komist allt til framkvæmda sem lofað er í stjórnarsáttmála má gróflega áætla að árleg útgjöld ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja vaxi um 90 milljarða króna.

Þetta kemur fram í pistli á vef Samtaka atvinnulífsins og var greiningunni einnig gerð skil í Viðskiptablaðinu í dag.

Þar segir að aukninguna beri að meta í því ljósi að útgjöld ríkissjóðs séu nú þegar með því sem hæsta sem gerist meðal ríkja OECD, eða 40% af landsframleiðslu. Það blasir því við að aldrei verði hægt að hrinda öllu því í framkvæmd sem lofað er í sáttmálanum.

„Í sáttmálanum er gert ráð fyrir að ein lengsta uppsveifla Íslandssögunnar muni teygja sig áfram yfir kjörtímabilið án mikilla áfalla og skerðinga á tekjum ríkissjóðs. Flokkarnir virðast samstíga um að auka útgjöld talsvert á tímabilinu. Ekki er hugað að hagræðingu í ríkisrekstri eða niðurgreiðslu skulda. Það er áhyggjuefni að ekki hafi verið dreginn meiri lærdómur af sögunni við gerð þessa sáttamála.“

Bent er á að vaxtakostnaður ríkisins sé nú þegar sá þriðji hæsti meðal iðnríkja. Ísland greiði 4% af landsframleiðslu í vexti á meðan Grikkir greiði ekki nema 3,2% og Svíar greiði 0,4% í vaxtagreiðslur. Verði einskiptistekjur nýttar til niðurgreiðslu skulda þá gæti árlegur vaxtasparnaður ríkisins numið um 10 milljörðum. 

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir