Jarðvarmavirkjun með aðkomu Íslendinga

Ljósmynd/Orkustofnun

Jarðvarmavirkjunin Pico Alto var formlega gangsett við hátíðlega athöfn á eyjunni Terceira, sem er hluti Azoreyjaklasans og tilheyrir Portúgal, 20. nóvember, en íslenskir aðilar komu að verkefninu. Orkustofnun var þannig ráðgjafi fyrir Uppbyggingasjóð EES, sem kom að fjármögnun verkefnisins, við mótun og framkvæmd orkuáætlunarinnar frá upphafi. Veitti sjóðurinn 3,7 milljónir evra til þess.

Fyrirtækið Jarðboranir hf. komu fyrst að vinnu við Pico Alto-jarðhitasvæðið árið 2003 þegar boraðar voru fjórar hitastigulsholur. ÍSOR kom síðan að verkefninu 2012 með líkanreikningum fyrir jarðhitasvæðið. ÍSOR síðar einnig að skipulagningu, framkvæmd og túlkun á bæði styttri og lengri rennslisprófunum. Þá vann ÍSOR ennfremur að uppfærslu á þeim líkanreikningum sem þegar hafði verið byrjað á með nýjum gögnum.

„Verkefnið er hluti af áætlun Uppbyggingasjóðs Evrópska efnahagssvæðisins 2009 – 2014, um endurnýjanlega orku og loftslagsmál og uppfyllir verkefnið markmið sjóðsins sem snýr að því að draga úr efnahagslegum og félagslegum ójöfnuði með því að stuðla að nýtingu sjálfbærra og vistvænna orkugjafa og draga úr gróðurhúsalofttegundum. Með verkefninu fá íbúar og fyrirtæki á svæðinu ekki aðeins aðgang að hreinni orku heldur fylgja virkjuninni ný störf til framtíðar,“ segir í fréttatilkynningu frá Orkustofnun.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir