Almenna leigufélagið undirbýr skráningu á markað

Almenna leigufélagið hefur ráðist í viðamikla endurfjármögnun til þess að undirbúa félagið fyrir skráningu á hlutabréfamarkað. Hún hefur í för með sér umtalsverða lækkun á fjármagnskostnaði félagsins. 

Í fréttatilkynningu frá Almenna leigufélaginu segir að í næstu viku verði haldið lokað skuldabréfaútboð þar sem fjárfestum gefst kostur á að kaupa skuldabréf sem tryggð eru með veði í fasteignasafni félagsins. Um er að ræða verðtryggt jafngreiðslubréf til þrjátíu ára, sem skráð verður á aðalmarkað Nasdaq við útgáfu.

Samhliða því hefur félagið lokið endurfjármögnun á láni hjá Landsbankanum og gert fjögurra milljarða króna lánasamning við bandarískan fjárfestingarsjóð fyrir milligöngu Fossa markaða.

Endurfjármögnunin mun hafa í för með sér umtalsverða lækkun á fjármagnskostnaði félagsins, segir í tilkynningunni. Að henni lokinni verða allar skuldir Almenna leigufélagsins tryggðar með veði í fasteignasafni félagsins, alls um tólf hundruð íbúðum sem að stærstum hluta eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu.

Haft er eftir Maríu Björk Einarsdóttur, framkvæmdastjóra Almenna leigufélagsins, að heildarendurfjármögnun á skuldum félagsins sé mikilvægur liður í undirbúningi á skráningu á markað, sem er stefnt að innan tveggja ára. 

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir