Hrista upp í verðsamkeppni á orkumarkaði

Ljósmynd/Aðsend

Orka heimilanna, nýtt fyrirtæki í sölu rafmagns á Íslandi, hóf starfsemi í mars og hefur það að markmiði að stuðla að aukinni verðsamkeppni í sölu til heimila og smærri fyrirtækja. 

„Tvö fyrirtæki hafa að mestu skipt með sér markaðinum hingað til en með smærri yfirbyggingu teljum við okkur geta rekið starfsemina með minni kostnaði og boðið lægra verð,“ segir Bjarni Ingvar Jóhannsson, viðskiptafræðingur og annar stofnenda fyrirtækisins. Hinn stofnandinn er Loftur Már Sigurðsson sem hefur unnið í orkugeiranum um árabil. 

Með breytingum á lögum árið 2005 var orkufyrirtækjum á Íslandi gert að skilja að söluhluta starfseminnar frá annarri starfsemi og um leið skapaðist tækifæri fyrir nýja aðila á markaði. Bjarni segir að frá þeim tíma hafi litlar breytingar orðið á markaðnum og að samkeppnin hafi helst komið fram í því að stórir raforkukaupendur njóti betri kjara. Orkusölufyrirtæki hafi ekki lagt áherslu á heimilismarkaðinn og minni notendur.

„Markmiðið er að fá þann fjölda viðskiptavina sem þarf til þess að reksturinn standi undir sér og þá stefnum við að því að lækka verðið enn frekar,“ segir Bjarni. „Þetta er nákvæmlega sama orkan og aðrir eru að selja en viðskiptin fara bara í gegnum okkur í staðinn. Það breytir engu hjá notandanum og hann verður ekki var við skiptin. Það eina sem breytist er að reikningurinn um mánaðarmótin lækkar.“

Bjarni Ingvar Jóhannsson, annar stofnenda Orku heimilanna.
Bjarni Ingvar Jóhannsson, annar stofnenda Orku heimilanna. Ljósmynd/Aðsend

Stefna að sjálfvirknivæðingu

Aðspurður segir Bjarni að munur á raforkukostnaði fyrir heimili getu numið þúsundum króna og allt að tugum þúsundum króna á ári en það ráðist af notkuninni. Til dæmis muni meira fyrir þá sem eru með rafhitun. Þá segir Bjarni að í framtíðinni muni fyrirtækið bjóða upp á ýmsar nýjungar sem gera litlum notendum kleift að fá orkuna á sem hagkvæmasta verði.

„Planið er að kynna tækninýjungar sem gera ferlið sjálfvirkara, til dæmis skráningu, en í upphafi ætlum við að halda startkostnaðinum í lágmarki til þess að geta haldið verðinu lágu.“

Spurður um umstangið í kringum það að stofna orkusölufyrirtæki segir Bjarni að verkið hafi verið meira en lagt var upp með. 

„Maður áttaði sig ekki á því í fyrstu hvað það væri í mörg horn að líta. Þetta er þannig geiri að það er mikið regluverk og stórar stofnanir og allt tekur því tíma.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK