Dæmdur til að greiða 119 milljónir

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Friðrik Ragnar Jónsson til að greiða Þorsteini Hjaltested 118.876.391 kr. á grundvelli handveðsyfirlýsingar. Málið varðar peningamarkaðsbréf að nafnverði 120.000.000 kr. sem Þorsteinn setti að veði 22. mars 2007 til tryggingar skuldum Grænna lausna ehf., í Reykjahlíð í Skútustaðahreppi.

Um var að ræða veð til tryggingar öllum skuldum félagsins við Landsbanka Íslands. Ætlunin var þó að veðið yrði einungis í peningamarkaðsbréfum að raunvirði 120.000.000 kr. og breytti Landsbanki Íslands handveðsyfirlýsingunni einhliða til lækkunar síðar í nafnverð 5.000.000 kr., að því er segir í dómi héraðsdóms. 

Ábyrgðist efndir Grænna lausna á láninu

Fram kemur að Friðrik Ragnar og Ólafur H. Jónsson hafi 23. mars 2007, persónulega og fyrir hönd Silfurtúns ehf., ritað undir svohljóðandi yfirlýsingu:

„Við undirritaðir aðilar staðfestum hér með að við ábyrgjumst með sjálfskuldarábyrgð efndir Grænna Lausna ehf. á láni því sem félagið hefur tekið hjá Landsbanka Íslands hf. dags. 22.3.2007 og tryggt er með handveðsetningu þessari og tryggja skaðleysi Þorsteins af handveðsetningu hans. Jafnframt ábyrgjumst við greiðslu vaxtaaukans samkvæmt ofangreindri skuldbindingu Grænna Lausna ehf. dags. í dag.“

Fram kemur að nefndur vaxtaauki hafi verið gerður á bakhlið handveðsyfirlýsingarinnar hinn 23. mars 2007. Þar staðfesta Ólafur H. Jónsson og Jónas A. Aðalsteinsson hrl. fyrir hönd Grænna Lausna að Grænar lausnir muni greiða Þorsteini 3% vaxtaauka við þá vexti er Grænar Lausnir greiði af láni félagsins hjá Landsbanka Íslands frá 22. mars 2007 og tryggt sé með handveðsetningunni. Bú Silfurtúns ehf. og Ólafs H. Jónsson hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta.

Grænar lausnir teknar til gjaldþrotaskipta 2010

Á umræddum tíma voru Grænar lausnir að langstærstum hluta í eigu félagsins artP ehf. Það félag var í jafnri eigu Friðriks Ragnars, Ólafs H. Jónssonar, Jónasar A. Aðalsteinssonar og Silfurtúns ehf., sem áttu hver um sig 25% eignarhlut. Silfurtún ehf. var síðan í fullri eigu Friðriks Ragnars. Hann sat jafnframt í stjórnum artP ehf. og Grænna lausna. Krafa Landsbanka Íslands á Grænar Lausnir var ásamt veðskuldbindingu Þorsteins færð yfir til Landsbankans með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008. Grænar lausnir var tekið til gjaldþrotaskipta 5. nóvember 2010 og 22. apríl 2013 gekk Landsbankinn að hinum veðsettu peningamarkaðsbréfum og ráðstafaði 118.876.391 kr. inn á gengistryggt lán, upphaflega 100.000.000 kr. frá 22.3.2007, og um 19.000.000 kr. inn á yfirdráttarskuld Grænna Lausna.

Umfjöllun Morgunblaðsins um Grænar lausnir

Þorsteinn lét reyna á gildi handveðsyfirlýsingarinnar gagnvart Landsbankanum og krafðist endurgreiðslu veðsins úr hendi bankans en með dómi Hæstaréttar í máli nr. 489/2016 frá 30. mars 2017 var þeirri kröfu hafnað. Í kjölfarið höfðaði Þorsteinn þetta mál. Ekki var mætt af hálfu Friðriks við þingfestingu málsins og var málið dómtekið og stefna árituð um aðfararhæfi 11. júlí 2017. Friðrik Ragnar fór hinn 12. september 2017 fram á endurupptöku málsins með vísan til 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málið var endurupptekið með ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2017, án mótmæla Þorsteins.

Taldi að birting stefnunnar hefði verið ólögmæt

Friðrik Ragnar taldi að vísa ætti málinu frá dómi, en frávísunarkröfu sína byggði hann á því að birting stefnunnar hefði verið ólögmæt. Stefnan hefði verið birt fyrir öðrum manni sem staddur hafi verið á lögheimili Friðriks. Um sé að ræða varastefnuvott í Reykjavík. Friðrik telur að engin birting hafi átt sér stað á þessum tíma en bæði eiginkona hans og dóttir hafi verið heima á birtingarstund en ekki orðið varar við neina stefnuvotta.

Friðrik byggði kröfu sína einnig á því að krafa Þorsteins væri vanreifuð, sem leiða ætti til frávísunar málsins.

Verulega ósanngjarnt og íþyngjandi

Þá kemur fram í dómi héraðsdóms, að Friðrik Ragnar telur að það sé verulega ósanngjarnt og íþyngjandi að ábyrgðarupphæðin sé lögð á hann. Friðrik Ragnar byggir á því að skilyrði séu til þess að víkja skuldbindingunni til hliðar í heild eða hluta og vísar til 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Hann telur það ósanngjarnt af hálfu Þorsteins að bera fyrir sig umrædda yfirlýsingu í ljósi efnis hennar og atvika við samningsgerð, svo og stöðu aðila og atvika sem síðar komu til.

Héraðsdómur segir í sínum dómi, að með hliðsjón af því sem áður hafi komið fram sé ljóst að Þorsteinn setti peningamarkaðsbréf sín að veði og tryggði þannig lán Landsbankans til handa Grænum lausnum og naut Silfurtún, sem Friðrik Ragnar átti, góðs af þessari áhættu sem Þorsteinn tók á sig.

Þorsteinn sá eini sem tók áhættu

„Stefnandi var sá eini sem tók áhættu vegna lánsins. Stefnandi átti að fá sérstakan vaxtaauka vegna þessa, sem og loforð stefnda og fleiri um skaðleysi hans vegna þessa. Stefnda mátti vera ljós sú ábyrgð sem hann tók á sig með undirritun handveðsyfirlýsingarinnar, enda vanur viðskiptum. Þá liggur ekkert fyrir í málinu um stöðu stefnda. Eins og atvikum málsins er háttað er ekki fallist á að ósanngjarnt sé af hálfu stefnanda að bera fyrir sig yfirlýsinguna. Stefndi gaf loforð sem ekki er ósanngjarnt að hann standi við. Þá er því hafnað að ákvæði 24. gr. skaðabótalaga hafi ekki verið beitt um viðskipti þessi enda gilda þau á svið skaðabótaréttar,“ segir í dómi héraðsdóms sem tók kröfu Þorsteins til greina. 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir