Póst- og fjarskiptastofnun sektar Símann

PFS sektar Símann hf. um 9 milljónir króna fyrir brot …
PFS sektar Símann hf. um 9 milljónir króna fyrir brot á fjölmiðlalögum.

Níu milljóna króna stjórnvaldssekt hefur verið lögð á Símann hf. af Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) vegna brots á fjölmiðlalögum. Í ákvörðun PFS, sem gerð var opinber í dag, segir að Síminn hafi brotið gegn fjölmiðlalögum með því að beina viðskiptum viðskiptamanna Sjónvarps Símans að tengdu fjarskiptafyrirtæki, allt frá 1. október 2015.

Sýn hf. (Vodafone) og Gagnaveita Reykjavíkur efh. (GR) kvörtuðu til PFS yfir meintu broti Símans, en Síminn og dótturfélag hans, Míla ehf., hafa mótmælt því að brot hafi átt sér stað.

Brotið fólst í því að þeir neytendur sem hafa viljað kaupa áskrift að ólínulegu sjónvarpsefni Símans, Sjónvarpi Símans Premium, hafa þurft að vera með myndlykil frá Símanum sökum þess að viðkomandi myndefni hefur síðan 1. október 2015 einungis verið dreift yfir svokallað IPTV-kerfi Símans og myndlykla Símans. Fyrir þann dag var einnig hægt að sjá ólínulegt myndefni Sjónvarps Símans í gegnum kerfi Vodafone.

PFS hefur komist að þeirri niðurstöðu að Síminn hafi ekki sýnt „raunverulegan samningsvilja“ gagnvart Vodafone til að semja um lausn sjónvarpsdreifingarinnar og einnig er það mat PFS að Síminn hefði getað takmarkað þau skaðlegu áhrif sem þessar ráðstafanir fyrirtækisins höfðu á Gagnaveitu Reykjavíkur, sem starfar í samkeppni við Mílu, með því að ná samningi við GR um aðgang að ljósleiðaraneti þeirra.

„Hvað þann þátt málsins varðar er það niðurstaða PFS að Síminn hafi á því tímabili sem liðið er frá því að brotið var framið ekki komið fram með sanngjarna og eðlilega aðgangsbeiðni að neti GR,“ segir á vef PFS.

Frétt á vef PFS um ákvörðunina

Ákvörðun PFS í heild sinni

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK