Græðir sárin hraðar en samkeppnisaðilinn

Íslenska lækningavörufyrirtækið Kerecis er með starfsemi sína á Ísafirði.
Íslenska lækningavörufyrirtækið Kerecis er með starfsemi sína á Ísafirði. Ljósmynd/Aðsend

Samanburðarrannsókn á meðhöndlun þrálátra sára bendir til þess að sáravörur sem íslenska lækningavörufyrirtækið Kerecis vinnur á Ísafirði skili betri árangri en vara helsta samkeppnisaðilans að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar á ársþingi bandarískra fótlækna í Washington í liðinni viku, þar sem þær vöktu mikla athygli.

Í nýju rannsókninni var kannað hversu hratt 170 fullþykktarsár greru eftir meðhöndlun með hvorri lækningavörunni fyrir sig. Tvö sár voru gerð á 85 sjálfboðaliða og var annað sárið meðhöndlað með íslensku sáraroði en hitt með himnu úr fósturbelg. Sárin voru síðan skoðuð skipulega yfir fjögurra vikna tímabil til að meta árangurinn.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru afgerandi og greru sárin sem voru meðhöndluð með íslensku sáraroði marktækt hraðar en hin að því er segir í tilkynningunni. Á 14. degi rannsóknarinnar höfðu 68% fleiri sáraroðssár gróið og á degi 18 voru þau 83% fleiri. Við lok rannsóknarinnar reyndist vera marktækur munur á heildarfjölda gróinna sára og voru tvöfalt fleiri fósturbelgssár ógróin samanborið við þau sem meðhöndluð voru með íslensku sáraroði.

„Þessi tímamótarannsókn skapar mikil sóknarfæri fyrir okkur á markaði sem veltir um 130 milljörðum króna á ári. Hún staðfestir hve íslenskt sáraroð er góð lækningavara, auk þess að vera hagkvæm og einföld í notkun. Framboðið af hráefni til framleiðslunnar er nægt, ólíkt því sem gerist hjá okkar helstu keppinautum, og það eru engar menningar- eða trúarlegar hindranir fyrir notkun á vörunni sem kemur úr sjálfbærum fiskistofni í tandurhreinum sjó,“ er haft eftir Guðmundi Fertram Sigurjónssyni, stofnanda og forstjóra Kerecis.

Vörur Kerecis eru eru unnar á umhverfisvænan hátt úr þorskroði, en helsta samkeppnisvaran EpiFix®, sem er mest notaða sáravaran við meðhöndlun slíkra sára í Bandaríkjunum, er framleidd úr fósturbelgjum nýbura.

Eftirspurn eftir lækningavörum af þessu tagi er mikil í Bandaríkjunum, enda fjölgar þeim hratt sem kljást þar við þrálát sár, t.d. vegna sykursýki.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK