Landsbankinn hagnaðist um 3,5 milljarða

Lilja Björk Einarsdóttir er bankastjóri Landsbankans.
Lilja Björk Einarsdóttir er bankastjóri Landsbankans. mbl.is/Eggert

Hagnaður Landsbankans á öðrum ársfjórðungi (2F) 2018 nam 3,5 milljörðum króna, samanborið við 5,1 milljarð króna á sama fjórðungi 2017.

Þetta kemur fram á vef bankans. 

Þar segir enn fremur, að arðsemi eigin fjár eftir skatta hafi numið 6,1%, samanborið við 8,6% fyrir sama tímabil árið 2017.

Enn fremur segir að afkoma Landsbankans hafi verið jákvæð um 11,6 milljarða króna eftir skatta á fyrri helmingi ársins 2018 samanborið við 12,7 milljarða króna hagnað á sama tímabili árið 2017. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 9,9% á ársgrundvelli samanborið við 10,6% á sama tímabili 2017. Rekstrarkostnaður stóð nánast í stað á milli tímabila.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir í tilkynningu, að afkoma Landsbankans á fyrri helmingi ársins 2018 hafi verið góð og uppgjörið sýni að rekstur bankans sé traustur, hvort sem litið er á tekjur, útlán eða rekstrarkostnað.

Hún bendir á, að von sé á fleiri nýjungum í stafrænni þjónustu á næstunni, enda sé ljóst að viðskiptavinir vilji geta sinnt bankaviðskiptum sínum með fljótlegum og öruggum hætti, hvar og hvenær sem er. 

„Útlán og innlán hjá Landsbankanum jukust talsvert milli tímabila sem endurspeglar bæði vaxandi umsvif í þjóðfélaginu og aukna markaðshlutdeild bankans sem mælist nú 37,9% meðal einstaklinga og 37,1% meðal fyrirtækja. Landsbankinn hefur sterka stöðu þegar kemur að alhliða fjármálaþjónustu við fyrirtæki og eignastýring bankans hefur náð góðum árangri, þrátt fyrir krefjandi aðstæður á hlutabréfamörkuðum undanfarið.

Alþjóðlega matsfyrirtækið S&P Global Ratings staðfesti nýlega lánshæfiseinkunn bankans, BBB+ með stöðugum horfum. Í tilkynningu S&P er bent á ýmis séreinkenni íslensks fjármálamarkaðar, bæði aðstöðumun á lánamarkaði og áhrif vegna smæðar markaðarins. Það er ánægjulegt að Landsbankinn hefur náð góðum árangri þrátt fyrir ýmsar áskoranir og við munum halda áfram að gera okkar besta til að veita viðskiptavinum ábyrga og samkeppnishæfa fjármálaþjónustu,“ segir Lilja í tilkynningunni. 

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir