Hagnaður Arion dregst saman um helming

Arion banki greiddi 880 milljónir í sérstakan bankaskatt á mánuðunum ...
Arion banki greiddi 880 milljónir í sérstakan bankaskatt á mánuðunum þremur. Ómar Óskarsson

Hagnaður Arion banka á öðrum ársfjórðungi 2018 var 3,1 milljarður króna og dregst saman um 55% frá sama fjórðungi í fyrra þegar hann var 7,1 milljarður króna. Arðsemi eigin fjár dregst saman sem því nemur og var hún 5,9% á ársgrundvelli, samanborið við 13,0% í fyrra.

Hagnaður bankans nam 1,9 milljörðum á fyrsta ársfjórðungi og er samanlagður hagnaður á fyrri hluta árs því 5,0 milljarðar króna.

Höskuldur Ólafsson bankastjóri segir afkomuna í takt við væntingar eftir fremur erfiðan fyrsta ársfjórðung. Góður vöxtur hafi verið í hefðbundinni starfsemi bankans en útlán til viðskiptavina jukust um 5% á fyrri helmingi árs samanborið við síðasta ár.

Stefnt er að því að koma Stakkbergi, eignarhaldsfélagi kísilverksmiðjunnar í Helguvík sem tók við þrotabúi United Silicon, í sölu á síðari hluta árs.

Lækka eigið fé með arðgreiðslum

Arion banki var skráður í Nasqad-kauphallirnar í Reykjavík og Stokkhólmi 15. júní og var sú skráning sú næststærsta í Íslandssögunni og fyrsta skráning íslensks banka í kauphöll frá hruni, að því er fram kemur í tilkynningunni.

„Það er ljóst að eitt af því sem vakti áhuga fjárfesta var sterk eiginfjárstaða og möguleikar bankans til að lækka hana í nokkrum skrefum á næstu árum með arðgreiðslum eða endurkaupum á eigin bréfum,“ segir Höskuldur.

Eiginfjárhlutfall bankans var 21,9% í lok júní en stjórn hefur samþykkt að leggja fyrir hluthafafund bankans að greiða tíu milljarða króna arð til hluthafa fyrir lok þriðja ársfjórðungs, sem samsvarar um fimm krónum á hlut.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir