Ekki í spilunum að loka fyrir viðskipti með bréf Icelandair

Bréf Icelandair hafa haldið áfram að hækka í dag.
Bréf Icelandair hafa haldið áfram að hækka í dag. Árni Sæberg

Í viðskiptum með skráð hlutafélög í Kauphöllinni er fylgt þeirri meginreglu að opið sé fyrir viðskipti meðan markaðurinn er opinn og býsna ríkar ástæður þarf til að víkja frá þeirri meginreglu. Þetta segir Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, í samtali við mbl.is. Hann segir ekkert í spilunum um að loka fyrir viðskipti með bréf Icelandair, en í dag og gær hafa bréf félagsins hækkað mikið og er það rakið til óvissu um skuldabréfaútboð WOW air. Þannig hækkuðu þau í gær um 10% og í dag hafa þau hækkað um tæplega 5%.

„Að okkar mati eru þær aðstæður ekki til staðar hér,“ segir Páll spurður hvort ástæða sé til að loka fyrir viðskipti með bréf Icelandair. Segir hann auðvitað hægt að leiða að því líkur að hækkun Icelandair stafi af væntingum og vangaveltum um stöðu WOW. „En það gefur ekki tilefni til að loka fyrir viðskipti með hlutabréf Icelandair.“

Segir Páll að miklu meira þyrfti að vera í gangi til að gripið yrði til slíkra aðgerða og að ólíklegt sé að upp komi álíka staða og hafi verið í þau fáu skipti sem lokað hafi verið fyrir viðskipti hingað til. Þar hafi þá oft verið um að ræða mögulegar upplýsingar sem lekið hafa út sem varða beint hið skráða félag. Vegna upplýsingaskyldu þurfi félög að greina eins fljótt og hægt er frá slíkum málum og því séu lokanir einnig oftast tímabundnar þangað til allir markaðsaðilar séu komnir með viðeigandi upplýsingar í hendur.

Páll segir spurður út í eftirlit Kauphallarinnar núna þegar fjölmargir komi að skuldabréfaútboði WOW að Kauphöllin fylgist alltaf vel með þegar eitthvað stórt sé í gangi. „Það er ekki bara í þessu tilfelli. Við fylgjumst náið með viðskiptum með bréf Icelandair og ég geri ráð fyrir Fjármálaeftirlitið geri það líka og vakti markaðinn,“ segir Páll að lokum.

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.
mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir