Lífeyrissjóðir funda um áform N1

Laun forstjóra N1 hækkuðu um rúma milljón á mánuði á ...
Laun forstjóra N1 hækkuðu um rúma milljón á mánuði á milli áranna 2016 og 2017. Ljósmynd/Aðsend

Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, stærsta hluthafa N1, ætlar að funda um áform stjórnar N1 um að taka að nýju upp kaupakakerfi á stjórnarfundi sjóðsins í næstu viku. Það ætlar stjórn Gildis lífeyrissjóðs einnig að gera, en Gildi á einnig stóran hlut í N1.

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra fordæmdi áform stjórnar N1 í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í gær. „Þessari vitleysu verður að ljúka,“ sagði hann, en laun forstjóra N1 hækkuðu um rúma milljón á mánuði á milli áranna 2016 og 2017. Tillaga stjórnenda N1 verður lögð fram á hluthafafundi síðar í þessum mánuði og sagði Ásmundur að lífeyrissjóðir og aðrir sem ættu í fyrirtækinu yrðu að stöðva þetta.

„Við höfum haft það í okkar hluthafastefnu að hófs sé gætt, að kaupaukar og bónusar séu innan skynsamlegra marka,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, en vildi ekki tjá sig nánar um málið fyrr en stjórn hefði komið saman.

Kolbeinn Gunnarsson, stjórnarformaður Gildis, sagði í samtali við mbl.is að málið yrði að öllum líkindum tekið upp á stjórnarfundi í næstu viku. Hann vildi ekki tjá sig um áform N1 fyrr en þau hefðu verið rædd af stjórn.

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir