Hallast að óbreyttum vöxtum

mbl.is/Eggert

Skiptar skoðanir gætu orðið innan peningastefnunefndar Seðlabankans á næsta fundi nefndarinnar um vaxtaákvörðun 3. október í ljósi þess hve september hefur verið tíðindaríkur að mati greiningardeildar Arion banka. Engu að síður hallast deildin að því að nefndin haldi stýrivöxtum óbreyttum líkt og verið hefur undanfarna mánuði.

„Við kynningu á síðustu vaxtaákvörðun og í umræðu á opinberum vettvangi hafa meðlimir í peningastefnunefnd að okkar mati tekið af öll tvímæli um að hækkun stýrivaxta kunni að vera á næsta leiti. Hvað svo sem líður umræðu um breytta peningastefnu þá veitir núverandi umgjörð nefndinni lítið svigrúm til þess að láta annað en verðbólguhorfur ráða för.“

Hins vegar bendir greiningardeildin meðal annars á að aukið peningalegt aðhald sé fyrir hendi þrátt fyrir óbreytta vexti. Meðal annars þar sem að undanförnu hafi gætt hækkunar á vöxtum húsnæðislána hjá bönkum og lífeyrissjóðum. Veikari króna þurfi ekki að kalla á hægri vexti enda á bak við veikinguna ótti vegna mögulegs samdráttar í ferðaþjónustunni.

„Verði það raunin má ætla að hratt myndist slaki á vinnumarkaði og framleiðsluspenna dragist saman, en hingað til hefur framleiðsluspennan verið ein helsta ástæðan fyrir því að vextir hafa ekki lækkað þeim mun meira. Hafa má í huga að þjóðhagsspá Seðlabankans gerir ráð fyrir lítils háttar styrkingu krónunnar,“ segir enn fremur. 

Þá er bent á að fjárlagafrumvarpið sé frekar hlutlaust, enn sé staða mála óbreytt á vinnumarkaði og verulega hafi hægt á hækkun húsnæðisverðs. Er deildin áfram þeirrar skoðunar að húsnæðisliður muni áður en langt um líður stuðla að kælingu verðbólgu. Það er að segja að hann hækki minna en annað verðlag.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK