Leggja til að skattheimta færist frá tollstjóra

Innheimta opinberra gjalda á höfuðborgarsvæðinu hefur verið í höndum tollstjóra. …
Innheimta opinberra gjalda á höfuðborgarsvæðinu hefur verið í höndum tollstjóra. Nefnd um endurskoðun á skattaframkvæmd leggur til að þau verkefni færist til ríkisskattstjóra. mbl.is/Ófeigur

Fyrir dyrum stendur að sameina innheimtuþátt tollstjóra við embætti ríkisskattstjóra, en með því myndu verkefni 50-60 starfsmanna tollstjóra færast til ríkisskattstjóra.

Nefnd sem skipuð var í júní um aukna skilvirkni í skattframkvæmd, álagningu og innheimtu opinberra gjalda, hefur skilað fyrsta hluta umfjöllunar sinnar og er þetta meðal þess sem nefndin leggur til.

Í tilkynningu á vef fjármálaráðuneytisins við skipun nefndarinnar kom fram að fyrri hluti verkefnis nefndarinnar væri að „Fjalla um verkaskiptingu, faglegt samstarf og sameiginleg verkefni milli stofnana ráðuneytisins við skattframkvæmd, álagningu og innheimtu opinberra gjalda. Nefndin leggi mat á það hvort og þá hvaða verkþættir í starfsemi stofnananna eigi samleið. Þar má nefna breytta og skilvirkari verkaskiptingu hjá stofnununum og möguleg tækifæri í samrekstri og nýtingu sameiginlegra innviða.“

Snorri Olsen, sem í dag er tollstjóri en tekur við embætti ríkisskattstjóra á mánudaginn, segir í samtali við mbl.is að niðurstaða nefndarinnar sé að færa þetta innheimtuhlutverk, sem og samræmingarhlutverk skattamála, yfir til ríkisskattstjóra.

Nefnir hann að í dag þurfi skattgreiðendur á höfuðborgarsvæðinu að hafa samband við ríkisskattstjóra til að forvitnast um hver álagningin sé, en svo að ræða við tollinn um hvernig skuli borga. „Rökin fyrir þessu er að greiðandinn geti á einum stað fengið upplýsingar um álagningu og greiðslu opinberra gjalda,“ segir Snorri.

Tollstjóri er í dag einn af níu innheimtumönnum ríkisins ásamt sýslumannsembættum á landsbyggðinni. Sjá þessi embætti um að innheimta allt frá útsvari yfir í bifreiðagjöld. Þá hefur tollstjóri einnig haft samræmingarhlutverk skattinnheimtu, en það hlutverk mun einnig færast til ríkisskattstjóra verði farið að ráðum nefndarinnar. Ekki er lagt til að innheimtuhlutverk á landsbyggðinni færist frá sýslumönnum þar.

Snorri Olsen tekur við sem ríkisskattstjóri á mánudaginn.
Snorri Olsen tekur við sem ríkisskattstjóri á mánudaginn.

Næstu skref, eigi að flytja verkefnin á milli embættanna, er lagafrumvarp. Snorri segir að í dag starfi um 50-60 manns við innheimtumál hjá tollstjóra, en líklegt má teljast að þau flytjist yfir til ríkisskattstjóra verði af breytingunum.

Í nefndinni sem leggur breytingarnar til sitja þau Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri og formaður nefndarinnar, Edda Símonardóttir forstöðumaður, Guðrún Ögmundsdóttir, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Ingibjörg Helga Helgadóttir, staðgengill skrifstofustjóra í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Ingvar J. Rögnvaldsson, settur ríkisskattstjóri, og Snorri Olsen tollstjóri.

Gert var ráð fyrir að nefndin myndi ljúka umfjöllun vegna fyrri hluta verkefnisins fyrir 1. október og hefur það nú verið gert. Er gert ráð fyrir að nefndin ljúki svo að fullu störfum fyrir 1. mars á næsta ári.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK