Ryðja stórum hindrunum úr vegi á orkumarkaðnum

Magnús Júlíusson, framkvæmdastjóri Íslenskrar orkumiðlunar
Magnús Júlíusson, framkvæmdastjóri Íslenskrar orkumiðlunar Haraldur Jónasson/Hari

Smásölumarkaður rafmagns, þar sem frjáls samkeppni ætti að ríkja, er vanþróaður hér á landi að sögn Magnúsar Júlíussonar, framkvæmdastjóra Íslenskrar orkumiðlunar. Fyrirtækið varð fyrst til að fá leyfi frá Orkustofnun til þess að stunda raforkuviðskipti í byrjun ársins 2017 eftir að samkeppni um raforkusölu var bundin í lög árið 2003. Fyrirtækið hyggst brjóta upp markaðinn og ryðja úr vegi þeim hindrunum sem standa samkeppni í orkugeiranum fyrir þrifum.

Yfirbyggingin á íslenska orkufyrirtækinu Íslensk orkumiðlun er ekki mikil um sig í ljósi þess að áætluð velta fyrirtækisins sé um 1 milljarður króna fyrir árið 2018. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru ein skrifstofa í Sjávarklasanum úti á Granda, sófi, tvær tölvur, nokkrir stólar auk stafræns arinelds á veggnum sem veitir rýminu nútímalega hlýju. Magnús Júlíusson er framkvæmdastjóri fyrirtækisins sem gerði nýverið samning við HB Granda um raforkuviðskipti sem hefjast 1. janúar á næsta ári. Um er að ræða orkusölu sem nemur 65 gígavattstundum á ári en það samsvarar raforkunotkun um 15 þúsund heimila. Fyrirtækið fékk leyfi til þess að stunda raforkuviðskipti á síðasta ári og hefur hafið innrás á markað sem staðið hefur nærri óhreyfður frá 2003 eða frá því að samkeppni um raforkusölu og framleiðslu var bundin í raforkulög það ár.

Magnús er menntaður verkfræðingur og er með meistarapróf frá Konunglega tækniskólanum í Stokkhólmi 2013 og hafði þá þegar ákveðið að helga sig orkugeiranum. Magnús hóf störf hjá Orkustofnun eftir útskrift og kynntist þar stjórnsýsluhlið markaðarins og eftirlitinu um þau náttúrulegu einokunarfyrirtæki sem starfa á orkumarkaðnum, dreifiveitur landsins og Landsnet. Tveimur árum síðar hóf hann störf hjá Orku náttúrunnar þar sem hann starfaði við orkumiðlun og kynntist markaðshlið orkugeirans. Í krafti þessarar reynslu stofnaði hann fyrirtækið Íslensk orkumiðlun ásamt fjárfestinum Bjarna Ármannssyni í fyrra.

Takmörkuð samkeppni

Eitt af markmiðum raforkulaganna frá 2003 var að skapa forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku. En fyrirtækin á markaðnum eru fá og fyrir utan HS Orku, Orku heimilanna og Íslenska orkumiðlun eru önnur fyrirtæki í opinberri eigu, ríkisins eða sveitarfélaga. Í stuttu máli er samkeppni um raforkuframleiðslu hér á landi þrátt fyrir að Landsvirkjun framleiði meira en 70% alls rafmagns á Íslandi. Þá er samkeppni á raforkusölumarkaði en hún er tvíþætt. Annars vegar er samkeppni í smásölu til stóriðju og hins vegar er samkeppni í smásölu til almenns markaðar fyrirtækja og heimila. Dreifikerfi og flutningskerfi landsins starfa aftur á móti á skilgreindum einokunarmarkaði. Magnús segir að eitt af markmiðunum með stofnun Íslenskrar orkumiðlunar hafi verið að ýta undir samkeppni á raforkusölumarkaði og færa hann í horf sem þekkist í nágrannalöndunum.

„Eitt af markmiðunum með stofnun fyrirtækisins var að reyna að ýta undir aukna samkeppni á markaði. Hún hefur verið afskaplega takmörkuð. Því til stuðnings mætti nefna að hlutfall þeirra notenda sem skipta um söluaðila, bæði fyrirtækja og heimila, er það lægsta á Norðurlöndum. Á Íslandi hefur það hlutfall alltaf verið innan við 1% á ári,“ segir Magnús og heldur áfram.

„Það er samt enginn munur á markaðnum hér og þar í eðli sínu nema sá að markaðurinn hér er minni. Í Skandinavíu er skiptihlutfallið í kringum 10% á ári og það fer alveg upp í 14%. Við erum með allan skalann þar eins og hér. Þar eru rafkynt heimili og ekki rafkynt heimili og notkun heimilanna er mjög breytileg. Verð á markaði þar er stundum hærra en hér og stundum lægra. Það er í raun ekki mikið öðruvísi hér heldur en þar nema að í Skandinavíu er kominn virkur markaður fyrir vöruna rafmagn sem er afar takmarkaður hér,“ segir Magnús í samtali við ViðskiptaMoggann.

Viðtalið í heild sinni má lesa í ViðskiptaMogganum í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK