Indigo hyggst setja meira í WOW

Skúli Mogensen.
Skúli Mogensen. Ljósmynd/Aðsend

Í nýrri yfirlýsingu sem send hefur verið í gegnum Kauphöllina í Stokkhólmi lýsir bandaríksi fjárfestingarsjóðurinn Indigo Partners sig reiðubúinn til þess að leggja allt að 90 milljónir dollara inn í rekstur WOW air að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Yfirlýsingin felur í sér að sjóðurinn hækkar fyrra tilboð sitt um 15 milljónir dollara en hann hafði áður lýst sig reiðubúinn að leggja félaginu til allt að 75 milljónir dollara. Heildarfjárfesting sjóðsins í WOW air gæti því að öllum skilyrðum uppfylltum numið jafnvirði 10,9 milljarða króna.

Í yfirlýsingunni er hins vegar ítrekað að enn sé ekki samkomulag komið á milli aðila. Þannig eigi enn eftir að ljúka áreiðanleikakönnun á rekstri félagsins. Samkvæmt hinu nýja samkomulagi gæti hlutur Skúla Mogensen, stofnanda og eina eiganda félagsins, orðið á bilinu 0 til 100%, allt eftir því hvernig félaginu reiðir af á komandi árum.

Fjárfesting sjóðsins mun fela í sér, að hann eignist hlutabréf í félaginu en veiti því einnig lán með breytirétti sem síðari geti orðið stofn að hlutafé í félaginu.

Leggja harðar að skuldabréfaeigendum

Í yfirlýsingunni er einnig greint frá því að þeir sem keyptu skuldabréf á félagið í september síðastliðnum þurfi að teygja sig lengra en áður var talið í samkomulagsátt, svo félagið geti haldið rekstrarhæfi sínu. Þannig hafi áreiðanleikakönnun leitt í ljós að skuldabréfaeigendurnir þurfi að samþykkja nýja skilmála sem feli í sér að endurheimtur þeirra verði bundnar rekstrarframmistöðu fyrirtækisins á næstu árum. Þannig geti endurheimtur þeirra orðið 50-100% af upphaflegu virði bréfanna.

Upphaflegur höfuðstóll skuldabréfaútgáfunnar var 60 milljónir dollara en hann verður færður niður í 30 milljónir evra. Í skuldabréfaútboðinu seldust hins vegar 50 milljónir evra og af því keypti Skúli Mogensen sjálfur fyrir 5,5 milljónir evra. Þá er lengt í skuldabréfunum og í stað þriggja ára eins og upphaflega var lagt upp með er nú miðað við að bréfin endurgreiðist á fimm árum. Vextir bréfanna fari einnig úr 9% og verði í stað þess 7%.

Þannig er skammt stórra högga í milli hjá þeim sem fjárfestu í félaginu í september. Þannig féllust fjárfestarnir á breytta skilmála bréfanna 18. janúar síðastliðinn en nú er tilkynnt að á næstu dögum muni skuldabréfaeigendunum berast formleg beiðni um að ganga að nýjum og harðari skilyrðum.

Skúli gefur eftir víkjandi lán

Samkvæmt skilmálunum er enn fremur kveðið á um að víkjandi lán sem fjárfestingarfélag Skúla Mogensen, Títan, hafði veitt WOW air, og stefnt var að því að yrði endurgreitt, er afskrifað. Fjárhæð lánsins sem nú er afskrifað nam 6 milljónum dollara, jafnvirði tæplega 730 milljóna króna. Í yfirlýsingu sem send var nú í morgun vegna þessa og í tengslum við breytta skilmála skuldabréfanna, segir að fjárhagsleg endurskipulagning félagsins leiði af sér að allar mögulegar endurheimtur núverandi hluthafa byggi á rekstrarafkomu félagsins á komandi árum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir