Botninum ekki náð

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, telur að botninum hafi ...
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, telur að botninum hafi ekki verið náð í niðursveiflunni. mbl.is/Golli

Botninum á niðursveiflunni er ekki náð ef marka má orð Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings Seðlabanka Íslands, á morgunfundi Félags atvinnurekenda í morgun. Þar sagði hann íslenska hagkerfið útflutningsdrifið og því verða fyrir áhrifum samdráttar í alþjóðlegum hagvexti.

Jafnframt benti hann á að væntingavísitala í viðskiptalöndum Íslands – Bandaríkjunum, Bretlandi og evrusvæðinu – benti til aukinnar svartsýni.

Samdrátturinn á Íslandi hefur til þessa verið drifinn af samdrætti í ferðaþjónustunni, loðnubresti og minnkandi álútflutningi, að sögn Þórarins. Þá telur hann einnig ástæðu til þess að fylgjast með viðskiptastríði Bandaríkjanna og Brexit, en báðir þessir óvissuþættir geta haft veruleg neikvæð áhrif á hagvöxtinn.

Gert ráð fyrir 0,2% samdrætti

„Við höfum farið úr mikilli spennu yfir í vaxandi slaka og þessi vaxandi slaki hefur mögulega stöðvast, en þýðir ekki endilega að hagvöxtur sé strax að taka við sér,“ segir aðalhagfræðingurinn í samtali við mbl.is. „Við gerum ráð fyrir 0,2% samdrætti í ár, á fyrrihluta árs var 0,9% hagvöxtur og til þess að fá þessa spá til að ganga upp þarf að verða nokkur samdráttur á seinni hluta árs.

Nú getur sú spá breyst þar sem þessar tölur birtust eftir að við birtum spána og við höfðum miðað við 0,5% hagvöxt á fyrrihluta árs. Jafnvel þótt það breytist aðeins er ljóst að hagvöxturinn verður lakari en fyrra hluti ársins, þannig að við erum ekki búin að ná botninum í hagvextinum,“ segir Þórarinn.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK