Ný Android-útgáfa hjálpi Vivaldi að fjölga notendum

Nýi vivaldi vafrinn í Samsung Galaxy síma.
Nýi vivaldi vafrinn í Samsung Galaxy síma.

Norsk-íslenska netvafrafyrirtækið Vivaldi, sem smíðar samnefndan vafra, hefur nú sent frá sér útgáfu af vafranum fyrir Android-stýrikerfið í fyrsta skipti, en hingað til hefur aðeins verið hægt að nota Vivaldi-vafrann á borðtölvum. Jón Von Tetzchner, eigandi Vivaldi Invest sem á Vivaldi að fullu, segir í samtali við Morgunblaðið að það sé bæði ánægjulegt og mikilvægt að geta nú boðið upp á farsímaútgáfu.

Smíði Vivaldi-vafrans fer, eins og áður hefur komið fram í Morgunblaðinu, fram á Íslandi, í Noregi og í Bandaríkjunum, en hjá fyrirtækinu starfa nú tugir manna á þessum þremur starfsstöðvum.

Jón Von Tetzchner er eigandi Vivaldi vafrans.
Jón Von Tetzchner er eigandi Vivaldi vafrans. Kristinn Magnússon

„Við erum komin með 1,2 milljónir notenda að vafranum, og árstekjurnar eru um einn bandaríkjadalur á hvern notanda,“ segir Jón, sem þýðir þá að heildartekjur félagsins eru um 1,2 milljónir dala, eða jafnvirði 150 milljóna íslenskra króna.

„Þessi farsímaútgáfa mun svo hjálpa mikið til við að fjölga notendum enn frekar, enda nota menn netið að stórum hluta í farsímum í dag.“

Spurður hvort útgáfa fyrir iPhone sé á leiðinni segir Jón að hún sé á verkefnalista hjá fyrirtækinu. „Það er meira mál að gera útgáfu fyrir iPhone og við erum ekki komin langt með hana. Áherslan var fyrst lögð á að gera Android-útgáfu, enda er það stýrikerfi með rúmlega 80% af heimsmarkaðnum.“

Jón átti áður vafrafyrirtækið Opera, en sá vafri náði er mest lét 350 milljónum notenda. Jón seldi fyrirtækið með miklum hagnaði á sínum tíma. En ætlar hann að ná sama notendafjölda í Vivaldi? „Markmið okkar er einfaldlega að fara eins langt og hægt er. Það tók sinn tíma fyrir Opera að fara upp í 350 milljónir.“

Tapaði 400 milljónum króna

Eins og fram kom á norska fréttavefnum E24 um helgina nam tap Vivaldi 29,2 milljónum norskra króna á síðasta ári, jafnvirði rúmra 400 milljóna íslenskra króna. Þar segir jafnframt að samanlagt hafi fyrirtækið tapað jafnvirði tæpra tveggja milljarða íslenskra króna frá stofnun árið 2013.

Jón segir að Vivaldi sé sprotafyrirtæki og það taki tíma að ná því að reka fyrirtækið réttum megin við núllið. „Staðan er sú að ég er sá eini sem kemur með pening inn í fyrirtækið og þannig vil ég hafa þetta. Ég vil ekki hafa neina aðra með og hef sagt nei við alla sem hafa sýnt því áhuga. Þar á meðal eru mörg flott fyrirtæki. Við höfum trú á verkefninu og finnst mjög gaman að því sem við erum að gera, en það er augljóst að sem sprotafyrirtæki erum við að eyða miklum peningum.“

Aðspurður segir Jón að fyrirtækið muni ná því að reka sig réttum megin við núllið þegar búið er að ná notendafjöldanum upp í 3-5 milljónir.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK