10 þúsund missa vinnuna hjá HSBC

AFP

Stjórnendur HSBC eru að undirbúa uppsagnir 10 þúsund starfsmanna bankans en aðeins nokkrar vikur eru liðnar síðan forstjóri bankans lét af störfum og tilkynnti á sama tíma um uppsagnir fjögur þúsund starfsmanna vegna slæmra efnahagshorfa í heiminum.

Flestir þeirra sem munu missa vinnunna eru hálaunaðir starfsmenn bankans en um lið í niðurskurðaráætlun nýs forstjóra bankans, Noel Quinn, er að ræða. Samkvæmt frétt Financial Times eru það einkum vaxtalækkanir, Brexit og tollastríð sem hafa slæm áhrif á stöðu bankans.

Höfuðstöðvar HSBC eru í London og olli það talsverðum titringi á fjármálamarkaði þar þegar John Flint tilkynnti afsögn sína sem forstjóri bankans í síðasta mánuði eftir að hafa gegnt stöðunni í aðeins 18 mánuði. Engin skýring var gefin á ákvörðun Flint. 

Þrátt fyrir uppsagnir vegna erfiðra aðstæðna í efnahagslífi heimsins hagnaðist bankinn um 8,5 milljarða Bandaríkjadala á fyrri hluta ársins. Það er 18,6% aukning á milli ára. 

Í síðasta mánuði tilkynntu stjórnendur þýska bankans Commerzbank að störfum yrði fækkað um 4.300 sem er um 10% af starfsmönnum bankans. Jafnframt að um 200 útibúum yrði lokað. Deutsche Bank hefur tilkynnt um uppsagnir 18 þúsund starfsmanna og franski bankinn Societe Generale er að segja upp 1.600 starfsmönnum.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK