Moody's hækkar lánshæfismat Íslands í A2

Moody‘s tilgreinir tvær meginástæður fyrir hækkuninni; annars vegar sé það …
Moody‘s tilgreinir tvær meginástæður fyrir hækkuninni; annars vegar sé það umtalsverð og viðvarandi skuldalækkun ríkissjóðs og góð staða í samanburði við önnur ríki með sama lánshæfismat, og hins vegar aukinn viðnámsþróttur efnahagslífs sem eykur þol hagkerfisins gagnvart áföllum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Matsfyrirtækið Moody’s hækkaði í dag lánshæfiseinkunn ríkissjóðs um eitt þrep í A2 úr A3. Horfur eru stöðugar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá matsfyrirtækinu, sem fjallað er um á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Moody‘s tilgreinir tvær meginástæður fyrir hækkuninni; annars vegar sé það umtalsverð og viðvarandi skuldalækkun ríkissjóðs og góð staða í samanburði við önnur ríki með sama lánshæfismat, og hins vegar aukinn viðnámsþróttur efnahagslífs sem eykur þol hagkerfisins gagnvart áföllum. Stöðugar horfur endurspegli væntingar um að áfram verði byggt á þeim árangri sem náðst hefur.

„Í tilkynningu sinni bendir matsfyrirtækið á að skuldir ríkisins hafa lækkað verulega síðan 2011 og frá fjármálahruni mest allra meðal ríkja sem fyrirtækið metur. Bætt umgjörð ríkisfjármála, m.a. með innleiðingu laga um opinber fjármál, hjálpar til við að varðveita þann árangur. Ávinningur af einkavæðingu fyrirtækja í opinberri eigu gæti styrkt efnahagsreikning ríkisins enn frekar að mati Moody‘s,“ segir á vef ráðuneytisins.

Moody’s hækkaði einnig þak á skuldum og innstæðum í innlendri mynt úr A1 í Aa3. Þak á skuldir í erlendum gjaldmiðli var hækkað í A1 úr A3 og þak á langtíma bankainnstæðu í erlendri mynt var hækkað í A2 úr A3. Þá hækkaði matsfyrirtækið skammtíma einkunn á skuldir og bankainnstæðu í erlendri mynt í P-1 úr P-2.

Á vef stjórnarráðsins segir að lánshæfiseinkunn ríkissjóðs gæti hækkað frekar ef ytri staða þjóðarbúsins batnar markvert og fjárhagslegt svigrúm til að mæta áföllum eykst, t.d. vegna viðvarandi verulegs afgangs á frumjöfnuði, sölu fyrirtækja í opinberri eigu eða verulegri lækkun ríkisábyrgða. Snörp hækkun skulda hins opinbera, verulegur samdráttur eða önnur efnahagsáföll hefðu neikvæð áhrif á lánshæfismat.

Lánshæfiseinkunn ríkissjóðs hefur haft jákvæðar horfur hjá Moody's síðan í júlí 2018 en fyrirtækið hækkaði síðast lánshæfiseinkunn ríkissjóðs í september 2016. Einkunn ríkissjóðs er nú sambærileg hjá matsfyrirtækjunum þremur sem meta lánshæfi ríkissjóðs, þ.e. Moody‘s, Fitch og Standard & Poor‘s en tvö síðarnefndu fyrirtækin styðjast við annað bókstafskerfi en Moody‘s.

Lánshæfiseinkunn ríkissjóðs

Moody's A2
Fitch A
S&P A

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK