2,7 milljarða hagnaður hjá RARIK

Þrátt fyrir óveður og tjón í upphafi árs eru horfur …
Þrátt fyrir óveður og tjón í upphafi árs eru horfur í rekstri RARIK á þessu ári góðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hagnaður RARIK á árinu 2019 var um 2,7 milljarðar króna og rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 5,7 milljörðum króna. Fjárfestingar ársins voru 5,5 milljarðar.

„Þrátt fyrir óveður og tjón í upphafi árs eru horfur í rekstri RARIK á árinu 2020 góðar. Gert er ráð fyrir að hagnaður ársins af reglulegri starfsemi samstæðunnar verði sambærilegur og á árinu 2019 en að fjárfestingar aukist á milli ára,“ segir í tilkynningu á vefsíðu RARIK.

Samkvæmt rekstrarreikningi nam hagnaður ársins 2.726 milljónum króna sem er svipað og áætlanir gerðu ráð fyrir, en lækkaði um tæp 2% frá árinu 2018 þegar hagnaður ársins nam 2.781 milljón króna.

Reiknuð áhrif hlutdeildarfélagsins Landsnets lækkuðu og voru 770 milljónir króna en voru 909 milljónir á árinu 2018. Heildarhagnaður að teknu tilliti til þýðingarmunar hlutdeildarfélags nam 3.103 milljónum króna.

Rekstrarhagnaður af starfsemi RARIK fyrir fjármagnsliði (EBIT) á árinu 2019 nam 3.501 milljón króna sem er rúmlega 3% lækkun frá fyrra ári. Minni veiking íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum og lægri verðbólga á árinu gerðu það að verkum að fjármagnsliðir voru heldur hagstæðari en á fyrra ári.

Fjármagnsgjöld umfram fjármagnstekjur námu um 1.059 milljónum króna, en á árinu 2018 námu þau 1.274 milljónum króna.

Samkvæmt efnahagsreikningi námu heildareignir RARIK í árslok 68.306 milljónum króna og hækkuðu um 2.353 milljónir króna á milli ára. Heildarskuldir námu 24.380 milljónum króna og lækkuðu um 441 milljón króna frá fyrra ári. Eigið fé var 43.926 milljónir króna og er eiginfjárhlutfall því 64,3% samanborið við 62,4% í árslok 2018.

Fjárfestingar ársins að frádregnu söluandvirði seldra rekstrarfjármuna námu 5.512 milljónum króna, sem er 1.818 milljónum króna hærra en árið á undan. Fjárfestingar í hitaveitum voru minni en áætlað var og færast yfir á árið 2020, en fjárfestingar í dreifikerfinu með jarðstrengjum voru umfram áætlanir. Í árslok 2019 var hlutfall jarðstrengja í dreifikerfi RARIK komið í 65%.

Stjórn RARIK ohf. leggur til við aðalfund að greiddar verði 310 milljónir króna í arð til eiganda RARIK, sem er Ríkissjóður Íslands.

Samstæðuársreikningur RARIK ohf. er gerður samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK