Fjártæknifyrirtækið Rapyd kaupir Korta

Rapyd hefur keypt alla hluti í Korta.
Rapyd hefur keypt alla hluti í Korta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alþjóðlega fjártæknifyrirtækið Rapyd hefur keypt alla hluti í greiðslumiðlunarfyrirtækinu Korta sem verður um leið hluti af næstu kynslóð tæknilausna í greiðsluþjónustu. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki frá Seðlabanka Íslands. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Korta.

Rapyd, sem er með höfuðstöðvar í Lundúnum, hefur vakið athygli fyrir fjártæknilausnir sem gera kaupmönnum kleift að taka við rúmlega 900 greiðslulausnum í yfir 100 löndum.

Markmið fyrirtækisins er að gera fjártækni að þjónustu fyrir kaupmenn og gera greiðslumiðlun aðgengilegri og einfaldari fyrir kaupmenn með nýrri tækni og auknu vöruframboði.

„Við höfum byggt upp sterkan grunn í færsluhirðingu á íslenskum markaði og teljum mikla þörf fyrir öflugri tæknilausnir og bætta greiðsluþjónustu á Íslandi, bæði fyrir núverandi viðskiptavini okkar, sem og aðra kaupmenn. Með aðgangi að þeim heimklassatæknilausnum sem Rapyd hefur þróað getur Korta boðið fyrsta flokks greiðsluþjónustu á Íslandi. Við hjá Korta erum mjög spennt fyrir þessum næsta áfanga með Rapyd og frekari vexti á íslenskum markaði,“ segir Jakob Már Ásmundsson, forstjóri Korta, í tilkynningunni.

Stefna á frekari vöxt innan Evrópu

Arik Shtilman, forstjóri Rapyd, segir að með kaupunum opnist tækifæri fyrir Korta til þess að veita íslenskum fyrirtækjum framúrskarandi þjónustu á sviði greiðslumiðlunar með bættu vöruframboði og fjártæknilausnum frá Rapyd.

„Korta passar vel í okkar stefnu við að stækka frekar innan Evrópu og við hyggjumst efla starfsemi Korta í Reykjavík. Við hlökkum til að vinna með Korta-teyminu til að auka frekari vöxt og útrás á Íslandi og víðar,“ er haft eftir Shtilman.

Jakob Már Ásmundsson, forstjóri Korta.
Jakob Már Ásmundsson, forstjóri Korta. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK