Opnað aftur tíu mánuðum eftir sjálfsíkveikju

Friðrik Weisshappel á Laundromat-kaffihúsinu í Austurstræti.
Friðrik Weisshappel á Laundromat-kaffihúsinu í Austurstræti. mbl.is/Árni Sæberg

Laundromat Café við Århusgade á Austurbrú í Kaupmannahöfn var opnað í morgun, um tíu mánuðum eftir að staðurinn brann nánast til kaldra kola í október í fyrra.

„Það voru gestir komnir fyrir utan korter í tíu morgun og stóðu í biðröð,“ segir eigandinn Friðrik Weisshappel, hæstánægður með viðtökurnar og útlit staðarins sömuleiðis.

Hífði sig upp á hárinu 

Eftir eldsvoðann segist hann hafa verið mjög niðurdreginn í mánuð á eftir, glápt mikið á Netflix og ekki svarað símanum. „Ég þurfti að hífa mig upp á hárinu úr sófanum eins og Münchausen gerði forðum daga og líta á jákvæðu hliðarnar,“ segir Friðrik. Hann bætir við að ýmislegt hafi verið komið á tíma í húsinu og ef þetta átti að gerast hafi þetta kannski verið besti tíminn, ef út í það er farið.

Hann kveðst hafa unnið baki brotnu síðustu mánuði við endurhönnun staðarins og gert allt sjálfur. Hann gat byrjað að taka til hendinni eftir að búið var að laga grunnmynd hússins eftir eldsvoðann, m.a. rífa gólfin af vegna ryðgaðra stálbita.

Friðrik rekur tvo Laundromat-staði í Kaupmannahöfn.
Friðrik rekur tvo Laundromat-staði í Kaupmannahöfn. mbl.is/Árni Sæberg

Sjálfsíkveikja í þvottakörfu

Spurður nánar út í eldsupptökin segir hann að sjálfsíkveikja hafi orðið í þvottakörfu. „Mér hefði aldrei dottið í hug að þetta gæti gerst eftir að heit föt komu út úr þurrkara,“ segir hann en fötin, viskustykki og fleira voru þvegin á 90 gráðum, sett í þurrkara og svo í körfu og áttu að bíða þar til morguns eftir að vera brotin saman. Staðnum var lokað klukkan 22 en um klukkan tvö um nóttina kviknaði í með þeim afleiðingum að nánast allt varð ónýtt.

„Þetta er nokkuð sem fólk þarf að átta sig á,“ greinir Friðrik frá en lögreglan var fljót að átta sig á því að sjálfsíkveikja hefði orðið í þurrum þvotti. Slíkt hefur víst gerst oft áður og hvetur Friðrik fólk til að skilja ekki heitan þurran þvott eftir í lokaðri körfu.

Kaupmannahöfn.
Kaupmannahöfn. AFP

Rekur tvo staði í Kaupmannahöfn

Friðrik rekur núna tvo staði í Kaupmannahöfn, í Austurbrú og Nørrebro, eftir að hafa selt þann þriðja sem var í Frederiksberg. Þann stað átti hann í tíu ár en staðurinn á Austurbrú er aftur á móti orðinn fjórtán ára gamall. Opnunina í dag ber meira að segja upp á sama dag og fyrsti staðurinn í Nørrebro var opnaður fyrir sextán árum. 

Hann segir of mikinn tíma hafa farið í að reka þrjá staði og ákvað því að selja staðinn í Frederiksberg og nefnir hann að dætur hans, 9 og 12 ára, hafi verið orðnar ósáttar við hversu upptekinn hann var. Þess má geta að Friðrik kem­ur ekki að rekstri Laun­drom­at Café í Austurstræti í Reykja­vík. 

Friðrik segir það vera lífsstílsákvörðun að eiga kaffihús og hefur hann fyrst og fremst gaman af því að líta í ýmis horn varðandi reksturinn, þar á meðal hönnun, mat, tónlist og markaðssetningu. „Þú „meikar“ ekki peninga og ert með geggjað „kvalitet“. Þetta er ákvörðun um að vera ekki ríkur en vera hamingjusamur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK