Níu milljóna sekt Símans felld úr gildi

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála telur Póst- og fjarskiptastofnun ekki hafa …
Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála telur Póst- og fjarskiptastofnun ekki hafa rökstutt mál sitt með viðhlítandi hætti. mbl.is/Hari

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur fellt úr gildi ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) um brot Símans hf. gegn fjölmiðlalögum og þar með níu milljóna króna sekt sem lögð hafði verið á fyrirtækið.

Forsaga máls er sú að Sýn hf. (Voda­fo­ne) og Gagna­veita Reykja­vík­ur efh. (GR) kvörtuðu til PFS yfir meintu broti Sím­ans og dótturfélagsins Mílu.

Meint brot fólst í því að þeir neyt­end­ur sem hafa viljað kaupa áskrift að ólínu­legu sjón­varps­efni Sím­ans, Sjón­varpi Sím­ans Premium, hafa þurft að vera með mynd­lyk­il frá Sím­an­um sök­um þess að viðkom­andi mynd­efni hef­ur síðan 1. októ­ber 2015 ein­ung­is verið dreift yfir svo­kallað IPTV-kerfi Sím­ans og mynd­lykla Sím­ans. Fyr­ir þann dag var einnig hægt að sjá ólínu­legt mynd­efni Sjón­varps Sím­ans í gegn­um kerfi Voda­fo­ne.

Í ág­úst 2018 kynnti Sím­inn til sög­unn­ar svo­kallaða OTT-lausn, þ.e. dreifi­kerfi á sjón­varpi í gegn­um in­ter­netið (streym­isþjón­ustu) sem fé­lagið kvað óháð fjar­skipta­net­um. Sýn, GR og Nova kvörtuðu til PFS og töldu um­rædda lausn Sím­ans ófull­nægj­andi og að hún losaði Sím­ann ekki und­an fyrr­nefndu broti. Töldu fé­lög­in að fram­setn­ing, verðlagn­ing og gæði OTT-lausn­ar­inn­ar beindu enn viðskipt­um viðskipta­manna að tengdu fjar­skipta­fyr­ir­tæki.

Sím­inn hélt því hins veg­ar fram að um­rædd OTT-lausn væri full­nægj­andi lausn óháð fjar­skipta­neti og leysti fé­lagið und­an broti gegn 5. mgr. 45. gr. fjöl­miðlalaga og Míla tók und­ir málsstað Sím­ans þess efn­is.

Niðurstaða PFS var sú að með því að skil­yrða OTT-lausn Sím­ans við til­tek­inn mynd­lyk­il sem væri seld­ur af fjar­skipta­hluta Sím­ans hefði fjöl­miðlaveita Sím­ans enn verið að beina viðskipt­um viðskipta­manna sinna að tengdu fjar­skipta­fyr­ir­tæki.

Skortir rökstuðning

Síminn kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndar, sem felldi hana, sem fyrr segir, úr gildi. Í rökstuðningi úrskurðarnefndarinnar segir að óumdeilt sé að Síminn hafi þegar brugðist við ákvörðun PFS frá árinu 2018 og gert breytingar á þjónustu sinni.

„Til þess að unnt sé að fallast á niðurstöðu PFS í hinni kærðu ákvörðun, hefði þurft að liggja fyrir mun ítarlegri rökstuðningur fyrir því af hverju tiltekinn myndlykill sé talinn hluti fjarskiptaþjónustu kæranda og hvernig aðrar OTT lausnir séu frábrugðnar í tæknilegu tilliti. Telur úrskurðarnefndin hina kærðu ákvörðun þannig skorta viðhlítandi skýrleika og rökstuðning, en líkt og að framan er rakið verður að gera afar ríkar kröfur til þess þegar um er að ræða íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir sem jafnframt leiða til beitingar stjórnvaldssekta,“ segir í rökstuðningi nefndarinnar.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK