Erlendir aðilar taka 41% af auglýsingatekjum

Auglýsingatekjur innlendra fjölmiðla lækkuðu milli ára um 16% og tekjur …
Auglýsingatekjur innlendra fjölmiðla lækkuðu milli ára um 16% og tekjur í heild um 7%. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á árunum 2016 til 2019 jókst hlutdeild erlendra aðila á auglýsingamarkaði hér á landi úr 29% upp í 41% þegar horft er til heildargreiðsla fyrir birtingu auglýsinga. Á sama tíma lækkaði hlutdeild innlendra aðila úr 71% niður í 59%. Á þessu tímabili jukust greiðslur til erlendu aðilanna um tæplega 2 milljarða en greiðslur til innlendra fjölmiðla drógust saman um rúmlega 3 milljarða. Þetta er meðal þess sem sjá má í tölum Hagstofunnar um tekjur fjölmiðla fyrir árið 2019 sem birtar voru í morgun.

Tekjur íslenskra fjölmiðla drógust saman um 7% frá árinu á undan, reiknað á föstu verðlagi, en samanlagðar tekjur fjölmiðla námu tæplega 25 milljörðum. Þar af voru tekjur af notendum 14,3 milljarðar og af auglýsingum ásamt kostun um 10,7 milljarðar. Hlutdeild Ríkisútvarpsins í fjölmiðlatekjum hækkaði á milli ára eða úr 24% í 26%. Fimm stærstu aðilar á fjölmiðlamarkaði tóku til sín 85% af samanlögðum tekjum fjölmiðla.

Þegar horft er yfir lengra tímabil má sjá að frá 2007 til 2010 lækkuðu tekjur fjölmiðla um tæp 30% á verðlagi ársins 2019. Frá 2014 til 2017 hækkuðu tekjur aðeins á ný, en hafa síðan þá lækkað.

Tekjusamdráttarins gætir á ólíkan hátt eftir miðlum. Hann hefur verið tilfinnanlega mestur í útgáfu blaða og tímarita sem rekja má til breyttrar fjölmiðlanotkunar, sífellt aukinnar netnotkunar almennings og greiðslu auglýsenda fyrir birtingu auglýsinga á erlendum vefmiðlum. Nærri lætur að tekjusamdráttur blaðaútgáfunnar hafi numið 60% frá því að þær voru hæstar árið 2006.

Tekjur af útgáfu tímarita og annarra blaða lækkuðu um 12% á milli áranna 2018 og 2019. Tekjur hljóðvarps lækkuðu um 9% á milli ára, sjónvarps um 4% og vefmiðla um fjórðung.

Hlutdeild Ríkisútvarpsins hækkaði milli ára

Hlutdeild Ríkisútvarpsins í auglýsingatekjum fjölmiðla hækkaði lítillega á milli áranna 2018 og 2019 eða úr 16% í 17%. Á sama tíma hækkaði hlutur Ríkisútvarpsins í samanlögðum auglýsingatekjum útvarps (hljóðvarps og sjónvarps) úr 40% í 44%. Hlutdeild Ríkisútvarpsins af auglýsingatekjum hljóðvarps hækkaði úr 32% í 38% og sjónvarps úr 46% í 49%.

Hlutdeild RÚV á auglýsingamarkaði hækkaði úr 16% í 17% milli …
Hlutdeild RÚV á auglýsingamarkaði hækkaði úr 16% í 17% milli ára og á hljóðvarps- og sjónvarpsmarkaði fór hlutdeildin úr 40% í 44%. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í samantekt Hagstofunnar segir að ástæða samdráttar í auglýsingatekjum fjölmiðla á undanförnum árum megi án efa að stærstum hluta rekja til auglýsingabirtinga á erlendum vefsíðum og miðlum. Erfitt er þó að henda reiður á hlutdeild erlendra miðla á auglýsingamarkaðinum, þar sem erlendir auglýsingamiðlar skulda íslenskum yfirvöldum upplýsingar um greiðslur sem til þeirra renna frá íslenskum aðilum fyrir birtingu auglýsinga.

Hagstofan miðar við greiðslur vegna kaupa á auglýsingum, markaðsrannsóknum og skoðanakönnunum og út frá því er gert ráð fyrir að samtals hafi 7,8 milljarðar runnið til erlendra aðila árið 2019, saman borið við 11,5 milljarða til innlendra fjölmiðla, en þá eru kvikmyndahús meðtalin. Er það sem fyrr segir 41% á móti 59%.

Sjá má nánari samantekt á þróun auglýsingatekjum fjölmiðla á vefsíðu Hagstofunnar.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK