Verstu janúarútsölur í 19 ár

mbl.is/​Hari

Verðbólgan mældist meiri í janúar en hún hefur verið síðan í ágúst 2013. Samkvæmt mælingu Hagstofunnar lækkuðu föt og skór um 6,5% í verði í janúar en síðustu fimm ár hefur þessi liður lækkað að meðaltali um 11% milli mánaða.

„Lækkunin núna er minnsta lækkun milli mánaða í janúar síðan 2002. Útsöluáhrifin síðasta sumar voru einnig lítil og má líklegast rekja þetta til þess að útsölurnar verða mun minni í sniðum vegna farsóttarinnar sem hefur leitt til þess að Íslendingar kaupa meira af fötum og skóm hér á landi,“ segir í Hagvísi Landsbankans í gær. 

Vísi­tala neyslu­verðs, miðuð við verðlag í janú­ar 2021, lækk­ar um 0,06% frá fyrri mánuði. Vísi­tala neyslu­verðs án hús­næðis lækk­ar um 0,24% frá des­em­ber 2020. Þetta var mun minni lækkun milli mánaða en almennt var búist við segir í Hagvísum Landsbankans en opinberar spár lágu á bilinu -0,12% til -0,42%. Hagdeild Landsbankans hafði spáð lækkun upp á 0,42%.

„Við eigum von á að verðbólga hafi náð hámarki núna í janúar og fram undan sé hjöðnun hennar og að verðbólgumarkmiði verði náð á seinni árshelmingi þessa árs. Mælingin er yfir efri vikmörkum verðbólgumarkmiðs (4,0%) og þarf Seðlabankinn því að senda ríkisstjórn greinargerð um ástæður fráviks, hve lengi áætlað sé að frávikið vari og hvort bankinn telji ástæðu til að grípa til sérstakra aðgerða. Næsta vaxtaákvörðun er á miðvikudag í næstu viku,“ segir enn fremur í Hagvísum.

Þegar rýnt er í tölur Hagstofunnar sést að sorphirðugjöld hækkuðu um 16,5% og hiti og rafmagn um 2,1%. 

Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. lækkuðu um 3,4% vegna áhrifa frá janúarútsölum. Síðustu þrjú ár hefur þessi liður lækkað í kringum 5% milli mánaða að jafnaði þannig að eins og með föt og skó er ljóst að útsölurnar í ár voru nokkuð slakar segir enn fremur í Hagvísum Landsbankans.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK