Beðin afsökunar á fyrirsögn

Ngozi Okonjo-Iweala er nýr forstjóri WTO.
Ngozi Okonjo-Iweala er nýr forstjóri WTO. AFP

Hún er doktor í hagfræði og hefur gegnt starfi fjármálaráðherra og utanríkisráðherra auk þess að stýra sviðum hjá Alþjóðabankanum. Þegar hún var ráðin forstjóri WTO var það sett í fyrirsögn dagblaða að amma væri að taka við starfinu. 

Fyrsta konan og um leið fyrsti Afríkubúinn til þess að stýra Alþjóðaviðskipta­stofn­un­inni (WTO) fagnar á Twitter afsökunarbeiðni sem hún fékk frá svissnesku dagblaði fyrir helgi.

„Það var mikilvægt og tímabært að þeir báðust afsökunar,“ segir Ngozi Okonjo-Iweala á Twitter. 

Hún tók við starfi forstjóra í dag eftir langan og farsælan feril. Meðal annars sem fjármálaráðherra og utanríkisráðherra í heimalandinu, Nígeríu, og hagfræðingur hjá Alþjóðabankanum í 25 ár, en hún er með doktorsgráðu í þróunarhagfræði frá Massachusetts Institute of Technology.

Þegar nokkur svissnesk dagblöð greindu frá stöðuveitingunni nú í febrúar var það hennar helsta afrek, ef marka mátti fréttirnar sem þeir birtu, að vera amma. „Þessi amma verður næsti forstjóri WTO“ var fyrirsögn Aargauer Zeitung og nokkurra annarra 9. febrúar. 

Í síðustu viku skrifaði hópur kvenna í leiðtogastöðum hjá Sameinuðu þjóðunum og yfir 120 sendiherrar í Genf undir mótmælaskjal þar sem fram kom að fyrirsögnin væri bæði kynþátta- og kynferðisníð og baðst blaðið afsökunar. 

„Þessi fyrirsögn var bæði óviðeigandi og óásættanleg... Við biðjumst afsökunar á þessum mistökum ritstjórnar,“ segir Samuel Schumacher, aðalritstjóri Aargauer Zeitung, í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér á föstudag.

Í færslu á Twitter fagnar Okonjo-Iweala afsökunarbeiðninni og segist vera þakklát í garð allra systra hennar í leiðtogastöðum SÞ og 124 sendiherra í Genf sem skrifuðu undir bréfið til dagblaðsins.

Hún segir nauðsynlegt að vekja athygli á og mótmæla niðurlægingu sem þessari, sem konur geti átt von á þegar þær taka við starfi leiðtoga. Okonjo-Iweala segir að þetta sé mjög í takt við það vandamál sem hún og fyrrverandi forsætisráðherra Ástralíu, Julie Gillard, fjalla um í bókinni Women and Leadership.

Okonjo-Iweala starfaði hjá Alþjóðabankanum í Washington í 25 ár og þar á meðal sem næstæðsti stjórnandi stofnunarinnar. Hún hafði meðal annars umsjón með starfsemi bankans í Afríku, Suður-Asíu, Evrópu og Mið-Asíu og fór með vörslu á yfir 80 milljörðum Bandaríkjadala.

Okonjo-Iweala gegndi í tvígang embætti fjármálaráðherra og eitt kjörtímabil sem utanríkisráðherra. Hún var fyrst kvenna til að gegna þessum embættum í Nígeríu. Þegar hún lét af embætti ráðherra sat hún í fjölmörgum alþjóðlegum ráðum og nefndum.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK