Engin færsla fór í gegn á söluhæsta tímabilinu

Einar Karl Birgisson, framkvæmdastjóri Cintamani.
Einar Karl Birgisson, framkvæmdastjóri Cintamani. mbl.is/Árni Sæberg

Allt ætlaði um koll að keyra þegar að bilun kom upp í greiðslukerfi Valitors í gærkvöldi um tíuleytið á einum stærsta netverslunardegi ársins.

Fjöldi verslana bauð upp á tilboð og afslætti sem búið var að auglýsa í nokkra daga og er þekkt að landsmenn nýti sér þessa afslætti m.a. til jólagjafainnkaupa. Rétt áður en deginum lauk og búast mátti við mestu umferðinni á netinu hættu hins vegar greiðslur að fara í gegn í óþökk margra viðskiptavina og verslunareigenda.  

Báðust afsökunar

Einar Karl Birgisson, framkvæmdastjóri Cintamani, segir þetta hafa verið hvimleiðan endi á annars góðum degi enda sé alltaf langmest að gera á tímabilinu einmitt þegar kerfið hætti að virka.

„Þetta var svona um tíuleytið í gærkvöldið og meira og minna til miðnættis, þar sem allir söluaðilar keyra upp hæp til þess að loka deginum. Það virtust bara ekki neinar kortafærslur fara í gegn á svona eins og hálfs klukkutíma tímabili á söluhæsta degi ársins, á söluhæsta tímabili dagsins,“ segir hann. 

Cintamani var ekki eina fyrirtækið sem lenti í þessum vandræðum heldur var um stærri bilun að ræða. Að sögn Einars hefur Valitor sent tölvupóst á viðskiptavini sína til að biðja þá afsökunar á þessum óþægindum.

Nokkur hundruð færslur sátu fastar

Að sögn Einars var kerfið rauðglóandi og sátu þar nokkur hundruð færslur fastar. Einungis hluti af þeim hefur skilað sér eftir að kerfið var lagað. Áttu starfsmenn fyrirtækisins fullt í fangi með að svara skilaboðum og símhringingum viðskiptavina sem sátu eftir með sárt ennið. „Það kemur smá hiti á okkur. Ég hef aldrei tekið jafn mörg símtöl á fimmtudagskvöldi frá tíu og til miðnættis.“

Einar segir erfitt að meta tapið sem af hlaust en til að bregðast við stöðunni var tekin ákvörðun um að framlengja tilboðin um einn sólarhring. „Við munum allavega láta afsláttinn gilda út daginn í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK