70 milljóna sekt fyrir skattalagabrot

mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í síðustu viku karlmann í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skattalagabrot. Hann var ennfremur dæmdur til að greiða 69,7 milljóna kr. sekt til ríkissjóðs.  

Fram kemur í dómi héraðsdóms að skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi hafið rannsókn á skilum afdreginnar staðgreiðslu og virðisaukaskatts Grindslov ehf. og Langhóls ehf. 12. febrúar 2020 en félögin eru bæði gjaldþrota og ákærði var forsvarsmaður þeirra. Niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að félögin höfðu vanrækt skýrsluskil og að standa skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda og innheimtum virðisaukaskatti á tilskildum tíma. Í júní 2020 vísaði skattrannsóknarstjóri málinu til héraðssaksóknara. 

Brotin náðu yfir þriggja ára tímabil

Héraðssaksóknari ákærði manninn, Radoslav Cabák, í september fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum og peningaþvætti fyrir að hafa í starfi sínu sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður einkahlutafélagsins Grindslov, sem nú gjaldþrota, ekki staðið skil á staðgreiðsluskilagreinum félagsins vegna staðgreiðslu opinberra gjalda. Um er að ræða sex mánaða tímabil árið 2017, sjö mánaða tímabil 2018 og einn mánuð árið 2019. Sömuleiðis fyrir að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagins á sjö mánaða tímabili 2017, 10 mánuði árið 2018 og einn mánuð 2019.  

Hann var einnig ákærður fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum einkahlutafélagsins á lögmæltum tíma. 

Þá var hann ákærður fyrir að hafa aflað Grindslov ehf. ávinnings af brotnum samtals að fjárhæð kr. 21.186.591 og nýtt ávinninginn í þágu einkahlutafélagsins og eftir atvikum í eigin þágu. 

Hann var ennfremur ákærður fyrir að hafa sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður einkahlutafélagsins Langhóls, sem er nú gjaldþrota, ekki staðið skil á staðgreiðsluskilagreinum einkahlutafélagsins vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma. 

Sömuleiðis var hann ákærður fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattskýrslum einkahlutafélagsins á lögmæltum tíma. 

Í ákæru héraðssaksóknar segir að hann hafi aflað Langhóli ehf. ávinnings af brotum samtals að fjárhæð kr. 14.574.185 og nýtt ávinninginn í þágu einkahlutafélagsins og eftir atvikum í eigin þágu. 

Játaði skattalagabrot en neitaði sök varðandi peningaþvætti

Fram kemur í dómi héraðsdóms að maðurinn hafi ekki gefið skýrslu við aðalmeðferð málsins en við þingfestingu játaði ákærði sök samkvæmt ákæruliðum er varða skattalagabrot. En hann neitaði sök varðandi peningaþvætti. Hann sagði að þeir fjármunir sem félögin hefðu ekki staðið ríkissjóði skil á vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts fyrir félögin Grindslov ehf. og Langhól ehf. hefði ekki verið haldið aðskildum frá öðrum fjármunum félaganna. 

Héraðsdómur sakfelldi því manninn fyrir skattalagabrot en dómurinn sagði að ákæruvaldið hefði ekki í máli þessu sýnt fram á viðbótarathafnir af hálfu mannsins í kjölfar skattalagabrotanna í því skyni af nýta ávinninginn af brotunum, umbreyta honum, flytja, senda, geyma, aðstoða við afhendingu hans, leyna honum eða upplýsingum um uppruna hans. Því var talið að frumbrot mannsins gegn 1. mgr. 262. almennra hegningarlaga tæmi sök gagnvart broti gegn 264. gr. laganna.

 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK