Farþegum fjölgaði í desember

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, var ánægður með þróunina í …
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, var ánægður með þróunina í desember. mbl.is/Árni Sæberg

Farþegum Icelandair fjölgaði í desember og sætaframboð jókst, þrátt fyrir að Ómíkron-afbrigðið setti strik í reikninginn. 

Samkvæmt tilkynningu frá Icelandair um mánaðarlegar flutningatölur, sem félagið birti í Kauphöllinni í dag, var heildarfjöldi farþega félagsins í innanlands- og millilandaflugi var 1,46 milljón árið 2021, og er það 64% aukning frá árinu 2020. Þá fjölgaði farþegum til Íslands um 54% á milli ára og farþegum í innanlandsflugi um tæp 80%.

Mikil fjölgun tengifarþega

Þar kemur einnig fram að heildarfjöldi farþega í innanlands- og millilandaflugi í desember síðastliðnum hafi verið um 169.000, samanborið við um 25.000 farþega í desember 2020 og 285.000 farþega í desember 2019. Var heildarframboð í desembermánuði um 65% af framboði sama mánaðar árið 2019.

Þá voru farþegar í millilandaflugi í mánuðinum um 149.000, en voru um 14.000 í desember 2020. Farþegar til Íslands í desember voru um 60.000 og farþegar frá landinu voru um 35.000. Tengifarþegar voru um 55.000 og hafa ekki verið fleiri síðan í febrúar 2020. Stundvísi í millilandaflugi var um 75%.

Sætanýting í millilandaflugi var 71%, samanborið við 40% í desember 2020 og 81% í desember 2019.

Farþegafjöldinn innanlands sambærilegur og fyrir faraldur

Þá kemur einnig fram að farþegar í innanlandsflugi hafi verið um 19.000 samanborið við um 10.000 í desember 2020 og 17.000 í desember 2019. Er farþegafjöldi í innanlandsflugi þannig orðinn sambærilegur við það sem hann var fyrir faraldur og jókst heildarfjöldi farþega innanlands í desember um 88% á milli áranna 2020 og 2021.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir í tilkynningunni að þrátt fyrir nokkur áhrif af völdum Ómíkron-afbrigðisins, hefði félagið náð góðum árangri í desember. Þá sé ánægjulegt að sjá að tengifarþegum haldi áfram að fjölga, en þeir voru tæplega 37% af heildarfarþegafjölda í desember. 

„Staða faraldursins og útbreiðsla nýs afbrigðis hafa haft áhrif til skamms tíma sem koma helst fram í því að við höfum dregið lítillega úr flugáætlun í janúar og febrúar til þess að sníða hana að eftirspurn. Framboðið í janúar er nú um 60% af framboði ársins 2019 og í febrúar um 65%, sem er lítið eitt minna en gert var ráð fyrir áður en áhrifa Ómíkron-afbrigðisins fór að gæta,“ segir Bogi, og bætir við að bókunarstaðan til lengri tíma sé áfram sterk. 

„Við höldum uppbyggingunni ótrauð áfram og munum sem fyrr nýta þann sveigjanleika sem við höfum í starfseminni til þess að laga okkur að aðstæðum hverju sinni með því að bæta í framboð eða draga úr eftir því sem við á,“ segir Bogi Nils að lokum.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK