Hefja flug milli Bandaríkjanna og Kúbu

Icelandair hyggst fljúga 170 flugferðir frá Bandaríkjunum til Kúbu í …
Icelandair hyggst fljúga 170 flugferðir frá Bandaríkjunum til Kúbu í vor. mbl.is/Árni Sæberg

Icelandair mun brátt bjóða upp á flug milli Bandaríkjanna og Kúbu þökk sé nýjum úrskurði bandaríska samgönguráðuneytisins.

Þurfa að hafa góða ástæðu fyrir ferðalaginu

Ráðuneytið samþykkti umsókn Icelandair um að fá að fljúga 170 leiguflugum milli Havana, höfuðborgar Kúbu og bandarísku stórborganna Miami, Orlando og Houston á fimmtudaginn var, að því er Business Insider greinir frá.

Ferðatakmarkanir frá Bandaríkjunum til Kúbu eru þó enn í gildi og því munu bandarískir ríkisborgarar þurfa að hafa góða ástæðu til að ferðast þangað. Til að mynda er þeim heimilt að ferðast til Kúbu til þess að heimsækja fjölskyldumeðlimi sem búsettir eru þar, til þess að læra, stunda viðskipti, framkvæma rannsóknir, veita fræðslu, keppa í íþróttum og sinna mannúðarstarfi.

Bandarísku flugfélögin Swift Air, World Atlantic Airlines og Global Crossing Airlines, sem bjóða fyrst og fremst upp á leiguflug með farþegaflugvélum, mótmæltu þó innkomu Icelandair inn á markaðinn harðlega.

„Aðal ástæðan fyrir því að Icelandair óskaði eftir leyfi fyrir auka 170 ferðum á fjögurra mánaða tímabili var til þess að bregða fæti fyrir bandaríska flugrekendur sem eru nú þegar á markaðnum,“ skrifaði Mark Schneider, lögmaður Global Crossing Airlines, í bréfi til bandaríska samgönguráðuneytisins.

Frá Havana, höfuðborg Kúbu.
Frá Havana, höfuðborg Kúbu. AFP

Enn opið fyrir umsóknir um aðra afgreiðslutíma

Forsvarsmenn Icelandair svöruðu þessum ásökunum og sögðust með þessu ekki vera að taka afgreiðslutíma (e. slot) frá neinum öðrum flugfélögum.

„Þar sem engar aðrar umsóknir um úthlutun afgreiðslutíma liggja fyrir hjá ráðuneytinu skiljum við ekki hvernig útgáfa leyfis Icelandair getur verið bandarískum flugfélögum í óhag,“ skrifaði Jonathan Fuchs, lögfræðingur Icelandair í Bandaríkjunum, í bréfi til bandaríska samgönguráðuneytisins.

Samgönguráðuneytið samþykkti þó umsókn Icelandair á endanum og benti um leið á þá staðreynd að enn væri opið fyrir umsóknir um aðra afgreiðslutíma sem bandarísk flugfélög gætu sótt um.

Icelandair hyggst bjóða upp á 170 flugferðir milli Bandaríkjanna og Kúbu á tímabilinu 1. febrúar til 31. maí.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK