DiCaprio fjárfestir í fyrirtæki Ingvars

Leonardo DiCaprio er þekktur fyrir að vera mikill umhverfissinni.
Leonardo DiCaprio er þekktur fyrir að vera mikill umhverfissinni. AFP

Stórleikarinn Leonardo DiCaprio hrósar uppfinningu VitroLabs, sprotafyrirtæki sem var m.a. stofnað af Íslendingnum Ingvari Helgasyni, í hástert og kveðst hann afar ánægður með fjárfestingu sína. Um er að ræða leður sem ræktað er úr frumum í rannsóknarstofu.

DiCaprio, sem er þekktur fyrir að vera mikill umhverfissinni, sagði vöruna vera jafn góða og þá sem fæst úr dýraríkinu og segir hann hana jafnframt hafa jákvæð áhrif á loftslagsbreytingar.

„Umfang rannsóknarvinnunnar og fágunin sem fór í að gera þessa vöru að veruleika, gerir þetta að afar spennandi tíma í þessum iðnaði. Ég er afar ánægður að taka þátt sem fjárfestir,“ segir í tísti leikarans.

Ingvar Helgason er framkvæmdastjóri og meðstofnandi VitroLabs en fyrirtækið er þekkt fyrir að sameina rannsóknir á stofnfrumum, lífefni (e. biomaterial) og prentun á þrívíðum vefjum. Þannig tekst fyrirtækinu að framleiða leður án þess að slátra þurfi dýrum.

Í samstarfi með Kering

Í umfjöllun Vogue sem birtist í dag segir að fyrirtækið sé í samstarfi með Kering, sem er móðurfyrirtæki tískurisanna Gucci og Yves Saint Laurent, við að þróa leðurefnið.

Kering er jafnframt lykilfjárfestir í VitroLabs en sprotafyrirtækinu hefur tekist að safna 46 milljónum bandaríkjadala, eða því sem nemur sex milljörðum króna, frá fjárfestum.

Er samstarfið talið undirstrika vaxandi áherslu innan tískuheimsins á að þróa efni sem hægt er að nota í stað leðurs. Þrátt fyrir að tískuvörumerki séu sífellt að verða meðvitaðri um þann skaða og þær áhættur sem fylgja leðurframleiðslu, hefur efnið verið ríkjandi í tískuvöruframleiðslu, sérstaklega á lúxusvörum. 

Uppfinning Vitrolabs er talin vera ein sú fyrsta sem hægt er að kalla „alvöru“ leður en ekki gervileður, þar sem ekki er um að ræða efni sem líkist eða hermir eftir kúaskinni. Gæti uppfinningin markað tímamót fyrir tískuiðnaðinn.

Mikil framför

Í samtali við Vogue segir Ingvar Helgason að frumurnar séu hafðar í umhverfi þar sem þær geta framleitt skinn eins og þær myndu gera í dýri, nema í þetta sinn eru þær innan veggja rannsóknarstofu.

Ingvar gat ekki sagt Vogue hver nákvæmlega umhverfisáhrif af framleiðslu leðursins væru þar sem enn væri verið að meta það. Hann kveðst samt fullviss um að þetta væri mikil framför í samanburði við hvernig hið hefðbundna leður hefur verið framleitt.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK