Níu tilnefnd í stjórn Festar

Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair og fyrrverandi forstjóri Samherja, er …
Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair og fyrrverandi forstjóri Samherja, er á meðal þeirra sem bjóða sig fram í stjón Festar. mbl.is/​Hari

Tilnefningarnefnd Festar hefur tilnefnt níu einstaklinga vegna stjórnarkjörs félagsins sem fram fer á hluthafafundi 14. júlí. Allir fimm núverandi stjórnarmenn félagsins eru aftur tilnefndir, en auk þess fjórir til viðbótar.

Það eru þau Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair og fyrrverandi forstjóri Samherja, Magnús Júlíusson, aðstoðarmaður Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og stofnandi Íslenskrar orkumiðlunar, Sigurlína Ingvarsdóttir, fjárfestir og fyrrverandi stjórnandi í tölvuleikjaframleiðslu hjá EA Sports og Þórdís Jóna Sigurðardóttir, fyrrverandi framkvæmdastýra Hjallastefnunnar og Soða Invest.

Björgólfur hefur áður setið í stjórn Festar, en hin kæmu ný inn ef þau hljóta kjör.

Festi rekur meðal annars verslanir Krónunnar og eldsneytisstöðvar N1.
Festi rekur meðal annars verslanir Krónunnar og eldsneytisstöðvar N1. mbl.is/Árni Sæberg

Þau sem fyrir eru í stjórninni eru þau Ástvaldur Jóhannsson, viðskiptaþróunarstjóri hjá Controlant, Guðjón Reynisson stjórnarformaður, Margrét Guðmundsdóttir, fyrrverandi forstjóri Icepharma, Sigrún Hjartardóttir, forstöðumaður fjár- og áhættustýringar Icelandair group og Þórey G. Guðmundsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fjármálasviðs Bláa lónsins.

Tilnefningarnefndin tilgreinir nokkur atriði um frambjóðendurna sem nefndin telur að geti nýst þeim í stjórnarstörfum og eru þau eftirfarandi:

Ástvaldur Jóhannsson: sterkur í að meta viðskiptatækifæri, víðtæk reynsla af breytingastjórnun og með bakgrunn í tæknigeira.

Björgólfur Jóhannsson: reynsla úr mörgum greinum atvinnulífsins, sterk samfélagsvitund, þekkir Festi og þá sérstaklega fjármálahliðina, óbeint eignarhald marktæks hlutar í Festi.

Guðjón Reynisson: víðtæk þekking á markaðsmálum smásölu í alþjóðlegu samhengi, eigandi marktæks hlutar í Festi.

Magnús Júlíusson: mikil þekking á orkumarkaði, sjálfbærni, umhverfismálum, stjórnsýslu og uppbyggingu fyrirtækja.

Margrét Guðmundsdóttir: alþjóðleg reynsla í olíuviðskiptum og markaðssetningu á fyrirtækja- og neytendamarkaði, mannauðsstjórnun og leiðtogaþjálfun.

Sigurlína Ingvarsdóttir: stefnumótun fyrir fyrirtæki og vörur, víðtæk reynsla á stafrænum markaði og mismunandi geirum, skynbragð á mismunandi viðhorf kynslóða gagnvart fyrirtækjum.

Sigrún Hjartardóttir: víðtæk þekking úr fyrirtækjaráðgjöf, áhersla á sjálfbærni og sjálfstæð gagnrýnin hugsun í takt við yngra athafnafólk.

Þórdís Jóna Sigurðardóttir: fjármálastjórnun, innleiðingu stefnumótunar og góðra stjórnarhátta, áhersla á nýsköpun og valdeflingu starfsfólks.

Þórey G. Guðmundsdóttir: víðtæk fjármálaþekking og jafnframt reynsla í ferðaþjónustuiðnaði.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK