Lífeyrissjóður verslunarmanna (Live) hefur aukið við hlut sinn í Festi. Í flöggun til Kauphallarinnar kemur fram að Live hefur keypt um 2,4 milljónir hluta og á þá 10,6% hlut í Festi.
Live var og verður áfram eftir þessi viðskipti næst stærsti hluthafi Festar. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) á samanlagt um 13% hlut.
Miðað við dagslokagengi í gær nema viðskiptinum um 540 milljónum króna. Markaðsvirði eignarhluta Live er nú um 7,5 milljarðar króna í félaginu.
Live hefur að undanförnum haft mikil áhrif á þróun mála hjá Festi. Sjóðurinn var á meðal þeirra hluthafa sem fóru fram á margfeldisskosningu á hluthafafundi í Festi í júlí og í stjórnarkjöri á fundinum greiddi sjóðurinn Hjörleifi Pálssyni öll sín atkvæði, sem er óvenjulegt hjá lífeyrissjóðum.