Íhuga að færa niður hagvaxtarspá Kína

Georgieva og Scholz á fundi í Berlín í dag.
Georgieva og Scholz á fundi í Berlín í dag. AFP/Tobias Schwarz

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn íhugar að færa niður hagvaxtarspá Kína vegna óeirða í landinu, sem hafa sprottið upp vegna stefnu kínverskra stjórnvalda vegna kórónuveirunnar, en víðtækar samkomutakmarkanir hafa verið í gildi í landinu í kjölfar fjölgunar smita.

Kristalina Georgieva, forstöðumaður sjóðsins, greindi frá þessu í dag. 

„Það er möguleiki að á þessum óvissutímum þurfum við að færa niður fyrri hagvaxtarspár,“ sagði Georgieva.

4,4% hagvexti spáð á næsta ári

Sjóðurinn færði niður hagvaxtarspá sína fyrir kínverska hagkerfið, það næststærsta í heimi, í október niður í 3,2% hagvöxt á árinu. Var þá tekið fram að aðgerðir stjórnvalda í baráttunni gegn kórónuveirunni hefðu haft neikvæð efnahagsáhrif á landið auk þess sem fasteignamarkaðurinn hefði dalað.

Sjóðurinn spáir 4,4% hagvexti í Kína á næsta ári.

Í dag hafa Kínverjar víða um heim haldið stuðningsmótmæli vegna ástandsins í heimalandinu þar sem ekki er aðeins farið fram á vægari samkomutakmarkanir heldur einnig að íbúar fái aukið tjáningarfrelsi. 

Lokað þrátt fyrir fá smit

Afar hörð viðbrögð Kínverja gagnvart kórónuveirufaraldrinum koma m.a. fram í því að héraðsstjórnir geta nánast fyrirvaralaust sett á algjört útgöngubann, farið fram á margra daga sóttkví og bannað alla umferð manna, jafnvel þótt um tiltölulega fá smit sé að ræða.

Georgieva, sem var á fundi í Berlín í Þýskalandi þar sem hún hitti kanslarann Olaf Scholz auk forstöðumanna fjármálafyrirtækja, sagði að Kínverjar væru nú loks að íhuga breytingu á nálgun sinni í baráttunni við kórónuveiruna. 

„Það myndi strax hafa jákvæð áhrif á kínverskt efnahagslíf. Við þurfum að styðja Kína í því að finna lausn á viðbrögðum við faraldrinum sem virkar betur, bæði fyrir þjóðina og fyrir hlutverk Kína í heimshagkerfinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK