Hljótum að þurfa að doka við

"Við eigum að nýta og gera verðmæti úr öllum tegundum," segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir. Mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Ánægjulegt er að sjá ný skip koma inn í íslenska fiskiskipaflotann og fá að fylgjast með þeirri uppbyggingu sem nú á sér stað í landvinnslu, eins og á Dalvík og Grundarfirði. Á sama tíma er erfitt að horfa upp á ónýttar aflaheimildir í tegundum á borð við blálöngu, keilu og gulllax, sér í lagi þegar því valda einna helst há veiðigjöld stjórnvalda.

Þetta segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, í samtali við 200 mílur.

„Það er hughreystandi að sjá tæknifyrirtæki í sjávarútvegi í stöðugum vexti, og sífellt vaxandi útflutningur á íslensku hugviti sem skapast hefur í atvinnugreininni er mikið ánægjuefni.“

Fjárfestinga þörf í skipum

„Endurnýjun hefur auðvitað verið mikil á undanförnum árum en þó ef til vill ekki nægileg. Skipaflotinn er ennþá tiltölulega gamall þegar á heildina er litið og vonandi verður því áfram hagstætt árferði til fjárfestinga. Þegar við horfum til að mynda yfir botnfiskflotann þá má segja að endurnýjun þar sé brýn, og fjárfestinga þörf í nýjum skipum.“

Heiðrún segir nýtingarstefnu stjórnvalda, með aflareglu í þorskveiðum, hafa skilað miklum árangri á undangengnum árum. Leyfilegur hámarksafli hafi þannig aukist úr 130 þúsund tonnum í rúmlega 260 þúsund tonn á einum áratug, og hrygningarstofn þorsks vaxið úr 125 þúsund tonnum í 650 þúsund tonn á aldarfjórðungi.

„Með hóflegri sókn samkvæmt aflareglu hafa fiskarnir náð að lifa og vaxa lengur og framlag á hvern nýliða til bæði afla og hrygningarstofns er því mun meira en áður var,“ segir hún. „Kostnaður við veiðar er mun minni þegar veitt er úr stórum stofni en litlum og því er afkoma þorskveiðanna mun betri en hún væri ef stofninn væri lítill.“

Greinilega að gera rétta hluti

Mikilvægt sé að halda áfram á þessari braut. Veruleg viðbótaraukning ársafla samkvæmt aflareglu velti á því að stór hrygningarstofn nái að geta af sér mun stærri árganga í framtíðinni.

„Það má kalla þetta sígandi lukku. Við höfum séð litla en stöðuga aukningu, ár frá ári, að segja má frá árinu 2007. Vonandi heldur þetta áfram því við erum greinilega að gera eitthvað rétt í fiskveiðistjórnuninni, sér í lagi hvað varðar þorskinn.“

Nýr samningur um loðnuveiðar, undirritaður af stjórnvöldum Íslands, Grænlands og Noregs, er afar mikilvægur, að sögn Heiðrúnar. Hann tryggi hagsmuni Íslands í veiðunum næstu árin og áframhaldandi ábyrga nýtingu loðnustofnsins, sem hafi mikla þýðingu bæði fyrir loðnuveiðar og einnig vegna mikilvægis loðnunnar sem fæðu fyrir aðra stofna nytjafiska á Íslandsmiðum, svo sem þorsks, ýsu, ufsa og kola.

„Það er komin nokkur reynsla á nýja aflareglu við loðnuveiðar frá árinu 2015, sem lögð er til grundvallar í þessum samningi. Í aflareglunni er tekið fullt tillit til óvissu í mælingum og öðrum þáttum með beinum hætti, eins og nú er almennt orðið í þessum efnum,“ segir Heiðrún. „Nauðsynlegt er að leggja mat á þessa reynslu og skoða leiðir til að fá betra mat á óvissuna.“

Ekki hægt að útiloka veiðibann

Humarvertíðin í ár hefur ekki gengið sem skyldi og spurð um komandi fiskveiðiár segir Heiðrún að ástand stofnsins valdi sér áhyggjum og mikil óvissa sé um framhaldið. Framfarir séu þó í stofnmælingum, svo sem með neðansjávarmyndavélum í stað toga, og myndin geti skýrst með því.

„Þessi þróun er okkur auðvitað mikið áhyggjuefni. Við þurfum einfaldlega að gera mun betur í rannsóknum, enda eru sífelldar breytingar í hafinu sem hafa svo áhrif á fiskgengd. Við eigum að passa upp á það að sinna rannsóknum svo að sómi sé að.“

Munum við jafnvel horfa fram á bann við veiðum á humri ef fram heldur sem horfir?

„Maður vonar að sjálfsögðu ekki. En miðað við stöðuna er því miður ekki hægt að útiloka bann.“

Ótrúlega gjöful fiskimið

Kolmunnaveiðar segir Heiðrún hafa gengið ágætlega og vonandi sé makrílveiðin að glæðast, sem byrjað hafi hálf-brösuglega.

„Menn hafa náð að stemma sig af eftir verkfall í helstu tegundum en enn vantar mikið upp á að aflaheimildir verði fullnýttar í tegundum eins og til dæmis blálöngu, keilu og gulllaxi. Það er mikið áhyggjuefni, sér í lagi þegar stór þáttur í því er hátt veiðigjald. Þegar gjaldið er orðið þannig að það borgar sig ekki að sækja og gera virði úr eintökum tegundum, þá hefur augljóslega verið gengið of langt,“ segir Heiðrún.

„Við höfum hér ótrúlega gjöful fiskimið og við eigum að nýta og gera verðmæti úr öllum þeim tegundum sem hér eru. Raunin er hins vegar orðin sú að með háu veiðigjaldi, auk styrkingar krónunnar og mikilla launahækkana, borgar sig ekki lengur að sækja í þessar tegundir. Þar af leiðandi verður ríkið, og þjóðin, af miklum verðmætum.“

„Þegar komið er á þennan stað þá hljótum við að þurfa að doka við og endurskoða þær ákvarðanir sem hafa verið teknar um gjaldtöku í atvinnugreininni. Þegar veiðigjaldið er orðið næststærsti kostnaðarliðurinn í útgerð, á eftir launakostnaði, þá krefst sú staða auðsýnilega endurskoðunar. Ríkissjóður verður einfaldlega af fjármunum, séu þessar tegundir ekki nýttar.“ 

Ólafur Sigurðsson hampar þeim gula í Grindavík.
Ólafur Sigurðsson hampar þeim gula í Grindavík. Mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
Sigling. Grímsnes GK á leið inn til Njarðvíkur.
Sigling. Grímsnes GK á leið inn til Njarðvíkur. Mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Bloggað um fréttina

Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 21.9.18 320,58 kr/kg
Þorskur, slægður 21.9.18 326,41 kr/kg
Ýsa, óslægð 21.9.18 290,51 kr/kg
Ýsa, slægð 21.9.18 250,39 kr/kg
Ufsi, óslægður 21.9.18 88,92 kr/kg
Ufsi, slægður 21.9.18 127,26 kr/kg
Djúpkarfi 28.6.18 87,90 kr/kg
Gullkarfi 21.9.18 165,18 kr/kg
Litli karfi 28.6.18 45,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 21.9.18 201,45 kr/kg

Fleiri tegundir »

23.9.18 Ásdís ÍS-002 Dragnót
Þorskur 415 kg
Ufsi 253 kg
Þykkvalúra / Sólkoli 36 kg
Skötuselur 17 kg
Lúða 17 kg
Steinbítur 13 kg
Samtals 751 kg
23.9.18 Háey Ii ÞH-275 Lína
Þorskur 5.860 kg
Ýsa 3.110 kg
Steinbítur 197 kg
Skarkoli 10 kg
Ufsi 7 kg
Samtals 9.184 kg
23.9.18 Guðmundur Þór SU-121 Línutrekt
Þorskur 1.100 kg
Ýsa 956 kg
Steinbítur 536 kg
Skarkoli 19 kg
Keila 12 kg
Samtals 2.623 kg

Skoða allar landanir »