„Næstum eins og að keyra upp í land“

Komið var með bátinn til viðgerðar hjá Sólplasti í síðustu ...
Komið var með bátinn til viðgerðar hjá Sólplasti í síðustu viku. Ljósmynd/Emil Páll Jónsson

„Mér brá alveg svakalega. Ég var bara að horfa fram og gera eins og maður gerir, depla auga og líta í skjáinn af og til. Engir bátar sjáanlegir og gott veður. Svo kemur þetta feikilega högg,“ segir Valdimar Elísson, sem lenti í árekstri við hval þar sem hann var að sigla til veiða á Breiðafirði í byrjun mánaðar.

„Ég skelltist auðvitað með hausinn upp í topp og allt dótið í bátnum – það fór bara fram í stefni. Þetta var næstum eins og að keyra upp í land, þótt ég hafi vissulega ekki reynslu af því,“ segir hann í samtali við 200 mílur.

„Ég slæ svo af, horfi til baka og sé þá sporðinn á greinilega stórum hval sem er að fara í kaf. Ég sá hann aldrei aftur.“

Hnúfubakur sýnir listir sínar í Eyjafirði.
Hnúfubakur sýnir listir sínar í Eyjafirði. mbl.is/Sigurður Ægisson

Byrjaði að leka inn í bátinn

Í fyrstu hélt Valdimar að báturinn, Byr SH sem hann gerir út frá Grundarfirði til strandveiða, hefði skemmst mun meira en raunin var. Sjálfur segist hann allur rispaður á hausnum eftir áreksturinn.

„Ég hélt að báturinn hefði brotnað mikið meira, og þá aðallega að framan. En það sér ekkert á honum nema hvað stýrið laskaðist og skrúfan sömuleiðis. Það byrjaði strax að leka inn í hann, með stýrisstammanum, en það hætti um leið og ég tók aftur af stað. Ég komst svo blessunarlega fyrir eigin vélarafli í land.“

En ætli hvalurinn hafi lifað þetta af?

„Svo veit ég ekkert um það,“ segir Valdimar. „Ef þetta var stór hvalur, eins og ég geri ráð fyrir, þá býst ég við að hann hafi lifað þetta af. Ég nam staðar nokkrum bátslengdum frá honum en varð ekkert var við neitt blóð í sjónum. Ég keyrði svo aftur til baka, eftir að ég hafði fullvissað mig um að báturinn væri í lagi, og þá voru engin merki um hann.“

Valdimar gerir bátinn út frá Grundarfirði en rær ekki meir ...
Valdimar gerir bátinn út frá Grundarfirði en rær ekki meir í sumar. Ljósmynd/Emil Páll Jónsson

Til viðgerðar hjá Sólplasti

Hann bætir við að áreksturinn hafi verið mjög óþægilegur.

„Maður átti ekki von á nokkrum sköpuðum hlut. Þarna eru engar grynningar og ekkert sker og eins og ég segi engin önnur skip eða bátar á ferð. En þetta fór alla vega þokkalega vel hjá mér og ég vona að hvalurinn hafi líka komist frá þessu án mikils skaða. En hann er örugglega rispaður og rúmlega það.“

Báturinn var tekinn til viðgerðar hjá bátasmiðjunni Sólplasti ehf. í síðustu viku og segist Valdimar ekki vita hversu dýrt tjónið verður honum. „Þetta er eitthvert tjón að minnsta kosti. En ég er hvort eð er ekki að fara að róa meira í sumar.“

Stýri bátsins og skrúfa urðu fyrir skemmdum í árekstrinum.
Stýri bátsins og skrúfa urðu fyrir skemmdum í árekstrinum. Ljósmynd/Emil Páll Jónsson

„Stórhveli úti um allt“

Spurður hvers kyns hvalur þetta hafi verið segir Valdimar það á huldu.

„Þegar ég sagði frá þessu fyrst héldu menn að þetta gæti verið hrefna, því þetta var norður af Fláka. En þetta var stærri skepna. Einhverjir segja mér að þetta geti hafa verið hnúfubakur. Þeir eiga það víst til að koma upp svona skyndilega.“

Fjöldi hvala er í Breiðafirðinum um þessar mundir og sögðu 200 mílur frá strandi fjögurra grindhvala við Ólafsvík á mánudag.

„Það er rosalega mikið af hval í Breiðafirðinum. Maður sér það sérstaklega í Álnum – alveg heilu vöðurnar af hval. Svo eru stórhveli úti um allt.“

mbl.is
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 16.8.19 343,76 kr/kg
Þorskur, slægður 16.8.19 285,29 kr/kg
Ýsa, óslægð 16.8.19 231,67 kr/kg
Ýsa, slægð 16.8.19 251,33 kr/kg
Ufsi, óslægður 16.8.19 98,01 kr/kg
Ufsi, slægður 16.8.19 138,45 kr/kg
Djúpkarfi 8.8.19 204,00 kr/kg
Gullkarfi 16.8.19 197,68 kr/kg
Litli karfi 15.8.19 0,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 8.8.19 300,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

17.8.19 Einar Guðnason ÍS-303 Lína
Þorskur 5.382 kg
Steinbítur 250 kg
Ýsa 231 kg
Samtals 5.863 kg
17.8.19 Sendlingur ÍS-415 Sjóstöng
Þorskur 178 kg
Samtals 178 kg
17.8.19 Svanur BA-413 Sjóstöng
Þorskur 270 kg
Samtals 270 kg
17.8.19 Hafrafell SU-065 Lína
Ýsa 533 kg
Þorskur 497 kg
Keila 169 kg
Karfi / Gullkarfi 161 kg
Hlýri 44 kg
Steinbítur 11 kg
Samtals 1.415 kg

Skoða allar landanir »