Þessa dagana vinna starfsmenn Vélsmiðju Orms og Víglundar, ásamt verktökum, í viðgerðum á danska olíuskipinu Orasila í stóru flotkvínni í Hafnarfjarðarhöfn. Skipið, sem er 16 metrar á breidd og rúmir 100 metrar að lengd, tók niðri við strendur Grænlands á dögunum og þarfnaðist tafarlausrar viðgerðar.
Að sögn Eiríks Orms Víglundssonar, forstjóra vélsmiðjunnar, þarf að skipta um stál í botni skipsins auk annarra viðhaldsverka. Viðgerðin hefur staðið yfir í tvær vikur og aðrar tvær vikur eru eftir.
Eiríkur segir aðspurður að verkefnastaðan sé búin að vera góð undanfarna mánuði, þó að veirufaraldurinn hafi haft takmarkandi áhrif á viðgerðir erlendra skipa. Fjölmörg verkefni hafi verið í báðum kvíunum fyrir íslenskar útgerðir. Við kvíarnar starfa að jafnaði um 25 manns auk þess sem verktakar eru ráðnir í stærri verkefnum, eins og við innréttingavinnu, dúka- og teppalagningu og raflagnir.
Stærri flotkvíin á myndinni er sú stærsta hér á landi, getur tekið inn allt að 14 þúsund tonna skip, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.