Hefði tekið á sig að verða borgarstjóri

Hefði tekið á sig að verða borgarstjóri

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti og borgarfulltrúi Pírata, verður formaður sameinaðs umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar í nýrri borgarstjórn.

Hefði tekið á sig að verða borgarstjóri

Sveitarstjórnarkosningar 2022 | 6. júní 2022

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti og borgarfulltrúi Pírata.
Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti og borgarfulltrúi Pírata. mbl.is/Óttar

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti og borgarfulltrúi Pírata, verður formaður sameinaðs umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar í nýrri borgarstjórn.

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti og borgarfulltrúi Pírata, verður formaður sameinaðs umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar í nýrri borgarstjórn.

„Loftslagsmál verða leiðarljós í allri okkar vinnu, við verðum að móta alla ákvarðanatöku út frá þessum markmiðum sem við eru með í loftslagsmálum og verðum að ná, þetta sendir þau skilaboð að umhverfismál og skipulagsmál séu óaðskiljanlegir málefnaflokkar.“

Hún segir að áfram verði lögð áhersla á þéttingu byggðar og uppbyggingu vistvænna samgangna.

„Við ætlum að endurskoða vor og vetrarþjónustu út frá því að forgangsraða betur í þágu gangandi og hjólandi. Við fundum það eftir snjóþungan vetur að mörg sem eiga ekki bíl komust einfaldlega ekki út fyrir hússins dyr.“

Næturstrætó verður endurvakinn og frítt verður í strætisvagna fyrir börn á grunnskólaaldri.

Ekki nóg að þétta bara

„Þétting skiptir máli en það er ekki sama hvernig hún er gerð.“

Dóra segir nýjan meirihluta átta sig á þessu og því verði útbúin stefna um gæði byggðar og gæði borgarhönnunar.

„Við þurfum að huga að gæðum hins byggða umhverfis og borgarhönnunar. Rýmið milli húsanna verður að vera af góðum gæðum, með grænu umhverfi. Við munum með stefnunni skapa gagnsæi og jafnræði og tryggja að við missum ekki boltann, en þétt byggð verður líka að vera góð lífskjarabyggð.“

Um er að ræða breytta og bætta nálgun, frá síðasta kjörtímabili, að sögn Dóru.

„Við erum að læra af reynslunni, sjá hvar holurnar eru í kerfinu okkar og stoppa í götin. Við í Pírötum stöndum fyrir umbótamenningu og viðurkennum að það megi alltaf gera betur.“

Oddvitar Framsóknar, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar kynntu málefnasamning nýs merihluta …
Oddvitar Framsóknar, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar kynntu málefnasamning nýs merihluta í dag. mbl.is/Óttar

Hefði verið til í stólinn

Píratar voru eini flokkurinn úr meirihlutasamstarfi síðustu borgarstjórnar, sem bætti við sig manni. Því komu fram vangaveltur um það hvort Píratar hygðust gera tilkall til embættis borgarstjóra.

„Ég hefði alveg tekið það á mig, ef sú sviðsmynd hefði verið eitthvað sem við hefðum endað með í fanginu,“ segir Dóra Björt, aðspurð hvort hún hefði viljað gegna embætti borgarstjóra.

Hún telur málefnum Pírata vel fyrir komið með þeirri verkaskiptingu sem flokkarnir hafa komið sér saman um.

„Við förum fyrir þessum málaflokkum sem skipta okkur máli, þar erum við á gólfinu og getum því haft áhrif. Við höldum þannig trúnaði við okkar kjósendur.“

Nýtt ráð verður sett á fót til þess að halda utan um stafræna þróun borgarinnar og telur Dóra það mikilvægt skref í takt við áherslur Pírata á nútímavæðingu, gagnsæi og aukið lýðræði.

„Við erum upptekin af mannréttindamálum og stöðu jaðarsettra hópa, við fáum mannréttindamál og inn í það kemur koma ofbeldisvarnarmálin líka. Það er í sameinuðu, enn sterkara jafnræðis og mannréttindaráði.“

Dóra Björt er nýbúin að eignast son, sem hefur fengið …
Dóra Björt er nýbúin að eignast son, sem hefur fengið að sitja marga fundina með henni. mbl.is/Óttar
mbl.is