„Við erum ekki forrituð til að vera hamingjusöm“

Andleg heilsa | 1. maí 2023

„Við erum ekki forrituð til að vera hamingjusöm“

Í nútíma samfélagi er lögð ofuráhersla á hamingjuna og almennt litið svo á að það sé óeðlilegt að vera ekki hamingjusamur. Sálfræðingurinn Hugrún Sigurjónsdóttir segir hamingjuna hins vegar ekki vera varanlegt ástand og að það gleymist oft að eðlilegt sé að líða stundum illa.

„Við erum ekki forrituð til að vera hamingjusöm“

Andleg heilsa | 1. maí 2023

Sálfræðingurinn Hugrún Sigurjónsdóttir þýddi bókina Hamingjugildran sem kom út á …
Sálfræðingurinn Hugrún Sigurjónsdóttir þýddi bókina Hamingjugildran sem kom út á íslensku í mars síðastliðnum. Ljósmynd/Superstudio Ljósmyndaþjónusta

Í nútíma samfélagi er lögð ofuráhersla á hamingjuna og almennt litið svo á að það sé óeðlilegt að vera ekki hamingjusamur. Sálfræðingurinn Hugrún Sigurjónsdóttir segir hamingjuna hins vegar ekki vera varanlegt ástand og að það gleymist oft að eðlilegt sé að líða stundum illa.

Í nútíma samfélagi er lögð ofuráhersla á hamingjuna og almennt litið svo á að það sé óeðlilegt að vera ekki hamingjusamur. Sálfræðingurinn Hugrún Sigurjónsdóttir segir hamingjuna hins vegar ekki vera varanlegt ástand og að það gleymist oft að eðlilegt sé að líða stundum illa.

Hugrún hefur starfað sem sálfræðingur með hléum í 23 ár, en hún lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1993 og réttindanámi frá Háskólanum í Árósum árið 2000. Í dag starfar hún sem sálfræðingur á Reykjalundi og á sálfræðistofunni Líf og Sál.

Í starfi sínu hefur Hugrún meðal annars notast við Sáttar- og atferlismeðferð (e. Acceptance and commitment therapy) eða ACT. Aðferðafræði ACT gengur út á það að læra sálfræðilega færni sem gerir okkur kleift að bregðast við erfiðum hugsunum og tilfinningum, sem taldar eru óhjákvæmilegur hluti þess að vera mannlegur, og draga úr áhrifum þeirra.

Nýverið þýddi Hugrún bókina Hamingjugildran þar sem kafað er djúpt ofan í hamingjuna og hvers vegna það sé svona erfitt að vera hamingjusamur. Þá eru einnig kynntar aðferðir innan ACT til að takast á við erfiðar hugsanir og tilfinningar, og að lokum farið yfir aðferðir við að byggja upp innihaldsríkt líf.

„Hugsanir okkar og tilfinningar eru síbreytilegar og það getur reynst þrautin þyngri að stjórna okkar innra hugarstarfi. Í bókinni er meðal annars fjallað um hvernig heilinn er forritaður og mikilvægi þess að hætta að berjast við hugsanir okkar og tilfinningar,“ segir Hugrún.

„Hamingjan kemur innan frá“

Að sögn Hugrúnar er erfitt að skilgreina hamingjuna, enda erum við öll ólík og þar af leiðandi misjafnt hvað veitir okkur hamingju. „Það má segja að hamingjan sé ákveðið vellíðunarástand sem við sækjumst í. Ég held að það sé mikilvægt að átta sig á því að hamingjan kemur innan frá. Fólk getur verið hamingjusamt þrátt fyrir að búa við skort, en getur einnig verið óhamingjusamt þrátt fyrir að skorta ekki neitt,“ útskýrir hún.

Spurð hvort hamingjan geti verið varanlegt ástand svarar Hugrún neitandi. „Ástæða þess er sú að við erum ekki forrituð til að vera hamingjusöm heldur til að lifa af. Við erum forrituð til að vera á verði, gera samanburð og verjast hættum. Ástæðan fyrir því að mannkynið hefur þróast eins og raun ber vitni er sú að fyrrnefnd varnarviðbrögð vara okkur við hættum. Við erum forrituð til að fara aftur og aftur yfir í huganum þar sem við teljum okkur hafa gert rangt,“ segir hún.

„Á meðan við vorum frumstæð hjálpaði það okkur að „endurspila“ ákveðna atburði, eins og til dæmis ef dýr réðst á okkur, því þá gátum við lært af því. Þessi eiginleiki okkar hefur fylgt okkur inn í nútímann, en í dag er lítið sem við getum „lært af því“ að endurspila ákveðnar senur í lífinu,“ bætir hún við.

Hugrún bendir á að heili mannsins hafi ekki þróast í takt við umhverfið og sé í grunninn sá sami og hann var fyrir 30 þúsund árum. Í dag erum við sjaldnast í lífshættu en erum þó enn með þessi innbyggðu varnarviðbrögð. „Það er okkur því eðlislægt að fara yfir í huganum hvað við hefðum eða hefðum ekki átt að gera. Nú eða hvað einhver annars hegði eða hefði ekki átt að gera,“ útskýrir hún.

„Þetta er stundum kallað „að grufla“ og leiðir yfirleitt til vanlíðunar og jafnvel þunglyndis. Lausnin á þessu felst í því að taka eftir hugsunum sínum og tilfinningum,“ bætir hún við.

„Það gleymist oft að það er eðlilegt að líða illa“

Í nútíma samfélagi er mikil áhersla lögð á hamingjuna, en Hugrún segir að almennt sé það álitið óeðlilegt að vera ekki hamingjusamur. „Þetta hefur stundum gengið svo langt að við erum farin að sjúkdómsvæða það að finna ekki alltaf fyrir hamingju. Ef þér líður illa er litið svo á að þú þurfir að leita til sálfræðings og ef til vill fara á lyf. Það gleymist oft að það er eðlilegt að líða illa þegar við upplifum breytingar í lífinu eins og heilsubrest, skilnað eða annað sem hefur neikvæðar tilfinningar í för með sér,“ útskýrir Hugrún.

Hún segir hluta af vandanum vera að okkur sé kennt að við getum stjórnað líðan okkar. „Hver kannast ekki við að hafa sagt við barnið sitt eða einhvern annan setningar á borð við: „Hættu nú að gráta“ eða „Þetta líður hjá“ eða „Það eru fleiri fiskar í sjónum“ við einhvern sem hefur lent í ástarsorg,“ segir Hugrún.

„Þá er sú mýta lífseig að hamingjan felist í því að þurfa lítið að hafa fyrir hlutunum. Sannleikurinn er hins vegar sá að hamingjan felst í því að takast á við erfiðleikana og sigrast á þeim. Með öðrum orðum þá byggir hamingja okkar á getunni til að takast á við erfiðleika og sársaukafullar tilfinningar sem þeim geta fylgt. Í daglegu tali er þetta kallað seigla eða þrautseigja,“ bætir hún við.

„ ... og svo lifðu þau hamingjusöm til æviloka“

Hugrún segir margt í samfélaginu ýta undir þá mýtu að hamingjan sé varanlegt ástand. „Það að biðja um eilífa hamingju er eins og að biðja um að veðrið verði alltaf gott. Jafnvel þó við séum á heitum slóðum breytist veðrið og er okkur ekki alltaf að skapi,“ segir Hugrún.

„Á samfélagsmiðlum virðist vera mikil keppni um að líta sem best út og að pósta af sér myndum þar sem allt leikur í lyndi. Ég er ekki saklaus af þessu og pósta frekar þegar allt gengur vel. Stundum þegar ég skoða mínar eigin færslur á Facebook aftur í tímann þá tengi ég lítið við þessa Pollýönnu sem leikur þar lausum hala,“ bætir hún við.

Hugrún segir það þó ekki vera skrítið að við freistumst til að halda að lífið byrji fyrst þegar við verðum hamingjusöm, enda séu margar sögur og ævintýri sem enda á setningum eins og: „ ... og svo lifðu þau hamingjusöm til æviloka.“

Að sögn Hugrúnar finna flestir hamingjuna einhvern tímann á ævinni, en það líði hins vegar yfirleitt ekki á löngu þar til eitthvað minni okkur á að sælan staldri stutt við. „Jafnvel í farsælum hjónaböndum og í samskiptum við okkar nánustu teiknast upp margar sviðsmyndir, bæði þær sem kveikja jákvæðar tilfinningar en einnig neikvæðar og erfiðar,“ segir hún.

Er hugsunin hjálpleg eða óhjálpleg?

Eins og fram hefur komið hefur Hugrún notast við ACT í sínu starfi, en hún segir slíka meðferð meðal annars henta þeim sem glíma við kvíða, þunglyndi, áfallastreitu, langvinna verki og fíknisjúkdóma. „ACT byggir á vísindalegum grunni og yfir 3.000 birtar rannsóknir hafa sýnt fram á árangur meðferðarinnar við ýmsum sálrænum kvillum. Aðferðarfræði ACT hefur einnig reynst árangursrík þegar kemur að því að byggja upp innihaldsríkt líf óháð því hvaða erfiðleika fólk er að glíma við,“ útskýrir Hugrún.

ACT hefur verið notað á hinum ýmsu sviðum, meðal annars í hernum, í viðskiptaheiminum, meðal atvinnumanna í íþróttum, í neyðarþjónustu, meðal stjórnenda, á sjúkrahúsum og í skólum. „ACT hefur einnig verið notuð sem aðferð til að minnka streitu, bæta heilsu og frammistöðu og til að auka vellíðan og seiglu,“ segir Hugrún.

Undanfarin ár hefur Hugræn atferlismeðferð (HAM) náð mikilli útbreiðslu innan sálfræðinnar. Spurð hvernig ACT sé frábrugðin HAM og þeim hefðbundnu sálfræðimeðferðum sem eru mest notaðar í dag segir Hugrún að best sé að lýsa því þannig að ACT sé eins og önnur grein af tré hinna ýmsu meðferðastefna.

„ACT svipar til annarra meðferða að sumu leyti en er frábrugðin að öðru leyti. Uppsetning ACT er einföld og myndræn sem gerir það að verkum að fleiri eiga auðvelt með að tileinka sér hana. Sjálf nota ég ACT í bland við aðrar meðferðarstefnur,“ segir Hugrún.

HAM gengur í stuttu máli út á að tengja hugsanir og tilfinningar og finna hvaða hugsun leiðir til hvaða tilfinninga. „Þannig leiða hugsanir um að við höfum klúðrað einhverju til tilfinninga á borð við skömm, sektarkenndar, depurðar og jafnvel reiði. Í ACT er hins vegar ekki lögð áhersla á að leita uppi ákveðnar hugsanir heldur er nóg að átta sig á því hvort hugsunin er hjálpleg eða óhjálpleg,“ útskýrir Hugrún.

„Ef ég tek dæmi um óhjálplega hugsun í daglegu lífi, þá hjálpar það okkur ekki að sofna ef við hugsum sem svo að morgundagurinn verði ónýtur ef við náum ekki að sofna strax. Við getum hugsað sem svo að eftir aðeins 4 klukkustunda svefn munum við ekki ná að tækla morgundaginn og öll þau verkefni sem honum fylgja. Þarna er nauðsynlegt að fjarlægja sig hugsun sinni með því að taka eftir henni,“ segir Hugrún.

„Við þurfum að vera minnug þess að hugurinn er stöðugt að vara okkur við hættum, ímynduðum eða raunverulegum, eins og hann var hannaður til að gera,“ bætir hún við.

Fyrsta skrefið að taka eftir hugsuninni

„Fyrsta skrefið er að taka eftir hugsuninni eins og í dæminu hér að ofan. Í bókinni er farið í aðferðir til að fjarlægja okkur erfiðum hugsunum og tilfinningum, eins og að „varpa akkeri“ sem gengur út á að taka eftir og nefna hugsanir okkar og tilfinningar, mynda tengsl við líkamann og halda svo áfram að gera það sem við erum að gera,“ útskýrir Hugrún.

„Þegar við tökum eftir og nefnum erfiðar hugsanir og tilfinningar minnka áhrif þeirra. Þetta er vegna þess að þegar við tökum eftir því sem við erum að hugsa þá virkjast framheilinn, en hlutverk hans er að róa frumstæðari hluta heilans sem varar okkur við hættum,“ bætir hún við.

Hugrún nefnir einnig mismunandi aðferðir til að „losa okkur af öngli“ erfiðra hugsana og tilfinninga, en með því að nota þær aðferðir látum við erfiðar hugsanir og tilfinningar hætta að stjórna okkur og því sem við gerum. „Hér er hugmyndaflugið virkjað og ein aðferðin gengur til dæmis út á að líta á hugsanir okkar eins og útvarp sem ekki er hægt að slökkva á.

Við þurfum ekki að trúa öllu sem þar er sagt og við þurfum heldur ekki að gefa því alla okkar athygli,“ segir Hugrún og vitnar hér í aðferðir í bókinni.

Í bókinni eru einnig kynntar aðferðir til að takast á við erfiðar hugsanir og tilfinningar, en Hugrún segir mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því hvort hugsanir okkar séu hjálplegar eða óhjálplegar. „Kynntar eru til leiks aðferðir til að fjarlægja okkur hugsunum okkar. Í stað þess að hugsa „ég er aumingi“ get ég sett forskeytið „ég tek eftir ...“, til dæmis: „Ég tek eftir hugsunum um að ég sé aumingi“,“ útskýrir Hugrún.

„Með þessu myndast ákveðin fjarlægð við hugsunina og þá missir hún mátt sinn,“ bætir hún við.

mbl.is