Vonir standa til að heitt vatn komist á í dag

Raddir Grindvíkinga | 24. febrúar 2024

Vonir standa til að heitt vatn komist á í dag

Vonir standa til að hægt verði að hleypa heitu vatni á í Grindavík seinni partinn í dag en lokað var fyrir vatnið í morgun á meðan vinna er í gangi við að tengja hjáveitulögnina.

Vonir standa til að heitt vatn komist á í dag

Raddir Grindvíkinga | 24. febrúar 2024

Séð yfir höfnina í Grindavík.
Séð yfir höfnina í Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vonir standa til að hægt verði að hleypa heitu vatni á í Grindavík seinni partinn í dag en lokað var fyrir vatnið í morgun á meðan vinna er í gangi við að tengja hjáveitulögnina.

Vonir standa til að hægt verði að hleypa heitu vatni á í Grindavík seinni partinn í dag en lokað var fyrir vatnið í morgun á meðan vinna er í gangi við að tengja hjáveitulögnina.

Ákveðið var að ráðast í vinnu við að koma fyrir hjáveitu hitaveitulögn yfir nýja hraunið eftir að í ljós kom að hitaveitulögn sem liggur undir hrauni frá því í eldgosinu þann 14. janúar sl. reyndist vera skemmd. Í fyrstu var gerð tilraun til að grafa niður að lögninni í gegnum heitt hraunið þar sem talið var að leikinn var en það tókst ekki.

Meira öryggi

„Það er heitavatnslaust í bænum eins og er en það stendur til bóta síðdegis eða þegar vinnunni lýkur. Það var búið að sjóða lögnina saman en það átti eftir að tengja hana. Þegar því lýkur verðum við komin með meira öryggi og ekki leka undir hrauninu eins og var að trufla verulega stöðuna hjá okkur,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, við mbl.is.

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

 Fyrir helgina var byrjað að hleypa köldu vatni inn í áföngum og var byrjað á hafnarsvæðinu. Að sögn Fannars komu lekar í ljós eins og vænta mátti. Hann segir að verið sé að lagfæra það og smá saman verði farið að fikra sinn í húsagöturnar.

Gist í 11 íbúðum í nótt

Fannar segir að gist hafi verið í ellefu íbúðarhúsum í Grindavík í nótt og hann segir að ekki séu mjög margir að koma inn í bæinn yfir daginn enda séu margir búnir að sækja flestar eigur sínar.

Færst hefur meira líf á hafnarsvæðið eftir að bærinn var opnaður.

„Það er vinnsla hjá útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækjunum Þorbirni og Einhamri og þeim fylgja þjónustufyrirtæki og þá hófst löndun á höfninni í vikunni. Það er því svolítið líf á þessum slóðum um þessar mundir,“ segir Fannar.

Vissum áfanga náð

Bæjarstjórinn er ánægður með að frumvörp ríkisstjórnarinnar um málefni Grindvíkinga hafi verið samþykkt á Alþingi fyrir helgina.

„Það var vissum áfanga náð. Margir íbúar höfðu beðið eftir þessu enda margir búnir að gera tilboð í eignir með fyrirvara um fjármögnun. Fyrir marga var þetta mjög ánægjulegt en það eru jaðartilvik sem þarf að skoða sem bæði íbúar og bæjarstjórnin hefur bent á að þurfi að skoða vandlega og reyna að leysa. En á heildina litið eru þetta víðtæk og góð úrræði sem voru samþykkt,“ segir Fannar.

Gott að fá þennan fund

Almannavarnir hafa boðað til upplýsingarfundar fyrir íbúa Grindavíkur í Laugardalshöllinni á mánudaginn þar sem markmiðið er að upplýsa íbúa um stöðu jarðhræringa og innviða í og við Grindavík. 

„Þar verður farið rækilega yfir jarðsjármyndanir, um stöðu innviða í bænum, um stöðuna á varnargarðinum, þá verða kynntar verklegar framkvæmdir og almennt hvernig umhorfs er ofan- og neðanjarðar í bænum. Það er gott að fá þennan fund og þar gefst fólki kostur á að bera fram spurningar. Slíkir fundir hafa alltaf skilað ágætis árangri og eru mjög mikilvægir.“

mbl.is